Sjávarafurðir: Lítilsháttar samdráttur á fyrri árshelmingi

10. júlí, 2024

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam tæplega 26 milljörðum króna í júní samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum um vöruviðskipti sem Hagstofan birti í vikunni. Það er um 4,5% samdráttur í krónum talið miðað við júní í fyrra. Lítil breyting var á gengi krónunnar á tímabilinu og er samdrátturinn mældur í erlendri mynt því svipaður, eða 4,8%.

Í umræddum samdrætti munar mest um fiskimjöl. Útflutningsverðmæti þess nam 1,1 milljarði króna nú í júní samanborið við 3,2 milljarða í júní í fyrra, sem jafngildir um 66% samdrætti á milli ára að teknu tilliti til gengisbreytinga. Eins var um 27% samdráttur í útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða á milli ára, en verðmæti þeirra nam rúmlega 2,2 milljörðum króna nú í júní. Þá var einnig samdráttur í útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ (-23%), rækju (-33%) og heilfrystum fiski (-19%).

Á móti var nokkuð myndarleg aukning í útflutningsverðmæti annarra vinnsluflokka. Útflutningsverðmæti lýsis ríflega tvöfaldaðist á milli ára, eða úr 800 milljónum króna í júní í fyrra í 1,8 milljarða í júní á þessu ári. Útflutningsverðmæti ferskra afurða jókst svo um tæp 15% á föstu gengi og frystra flaka um tæp 21%. Sundurliðun á útflutningsverðmæti sjávarafurða eftir vinnsluflokkun má sjá á myndinni hér fyrir neðan, en ekki liggja fyrir upplýsingar niður á tegundir í þessum fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar.


Loðnan telur enn

Á fyrstu sex mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúman 171 milljarð króna. Það er um 2% samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra að teknu tilliti til gengisbreytinga. Þrátt fyrir að ekki sé búið að birta upplýsingar niður á tegundir fyrir júnímánuð er ljóst að þennan samdrátt á fyrri árshelmingi á milli ára má fyrst og fremst skrifa á loðnubrest í ár. Í þessu samhengi er nærtækt er að nefna að á fyrstu fimm mánuðum ársins hafði útflutningsverðmæti sjávarafurða dregist saman um tæp 2% á milli ára á föstu gengi. Séu loðnuafurðir hins vegar undanskildar í tölunum, jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða um tæp 8% á sama kvarða. Afrakstur loðnuvertíðarinnar í fyrra er þó enn að skila sér í útflutningi í ár, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar eru loðnuhrognin fyrirferðamest, enda var metframleiðsla á hrognum í vertíðinni í fyrra.


Ágætis gangur þrátt fyrir loðnubrest

Téðan samdrátt á fyrri árshelmingi má fyrst og fremst rekja til tveggja afurðaflokka, þ.e. heilfrysts fisks og fiskimjöls. Þannig dróst útflutningsverðmæti heilfrysts fisks saman um 29% og fiskimjöls um 31% á föstu gengi. Í báðum þessum flokkum hafa loðnuafurðir alla jafna verið mjög fyrirferðarmiklar, líkt og sést á myndinni hér á undan. Eins var töluverður samdráttur í útflutningsverðmæti rækju (-21%) og svo lítilsháttar samdráttur í  „öðrum sjávarafurðum“ (-2%), en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn.

Á hinn bóginn hefur talsverð aukning orðið í útflutningsverðmæti ferskra afurða (11%) og lýsis (26%) á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Í þeim tilvikum hafa verðmætin í raun aldrei verið meiri á fyrri árshelmingi og nú í ár.  Þá var einnig lítilsháttar aukning í útflutningsverðmæti frystra flaka (3%) og saltaðra og þurrkaðra afurða (2%). Það má því segja að heilt á litið sé ágætis gangur í sjávarútvegi þrátt fyrir loðnubrest.

 

Deila frétt á facebook