Sjávarafurðir: Talsverð aukning í febrúar
5. mars, 2020
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 21,7 milljörðum króna í febrúar samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Þetta er rúmlega 14% aukning í krónum talið miðað við febrúar í fyrra þegar útflutningsverðmæti sjávarafurða nam um 19 milljörðum króna. Gengi krónunnar var rúmlega 2% lægra nú í febrúar en í sama mánuði í fyrra og að teknu tillit til þeirra áhrifa er aukning á útflutningsverðmætum sjávarafurða rúm 11% á milli ára. Ekki liggur fyrir frekari sundurliðun á því hvernig útflutningsverðmæti eða magn á einstökum afurðum þróaðist í febrúar, en tölur þess efnis verða birtar 31. mars.
Um 45% vöruútflutnings
Miðað við ofangreindar tölur er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 44,7 milljarða króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við 41,3 milljarða á sama tímabili í fyrra. Þetta er rúmlega 8% aukning í krónum talið en rúm 6% í erlendri mynt. Verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi í heild var um 100 milljarðar króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við 102 milljarða á sama tímabili í fyrra. Hér er útflutningur á skipum og flugvélum, sem eru einskiptisliðir, undanskilin en slíkur útflutningur var verulegur í byrjun síðasta árs. Er hlutdeild sjávarafurða í vöruútflutningi 45% á fyrstu tveimur mánuðum ársins, samanborið við 41% á sama tímabili í fyrra. Aukinn hlutdeild skýrist einnig af því að útflutningur á áli, sem er annar stærsti liðurinn í vöruskiptum, hefur dregist verulega saman.