Sjávarafurðir: Talsverður samdráttur

13. janúar, 2021

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam tæplega 247 milljörðum króna á fyrstu 11 mánuðunum í fyrra. Það er rétt rúmlega 1% aukning frá sama tímabili árið 2019 í krónum talið. Áhrifin af gengisveikingu krónunnar á síðasta ári eru töluverð og mælist tæplega 9% samdráttur á milli ára sé tekið tillit til þeirra. Þann samdrátt má rekja til rúmlega 7% samdráttar í útfluttu magni og tæplega 2% lækkunar á afurðaverði mælt í erlendri mynt. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofan birti um vöruskipti á mánudag.
 


Mestu munar um loðnu
Þrátt fyrir að loðnubrestur hafi verið annað árið í röð í fyrra munar mest um loðnuna af einstaka tegundum sjávarafurða í ofangreindum samdrætti í útflutningsverðmætum á milli ára. Ástæðan er sú að sala loðnubirgða vóg nokkuð drjúgt í útflutningstölum ársins 2019. Í heild nam útflutningsverðmæti uppsjávarafurða rúmlega 42 milljörðum króna á fyrstu 11 mánuðum ársins og dróst saman um 21% í erlendri mynt frá sama tímabili árið 2019. Útflutningsverðmæti þorskafurða var á svipuðu róli á milli ára, mælt í erlendri mynt, en um 10% samdráttur var í útflutningsverðmæti annarra botnfiskafurða. Þar munar mest um ufsa, en eins var talsverður samdráttur í útflutningsverðmætum á ýsu og karfa. Útflutningsverðmæti flatfiskafurða dróst svo saman um rúm 14% á milli ára og skelfisks um 25%. Á morgun birtir Hagstofan fyrstu bráðabirgðatölur um vöruskipti í desember sem gefur þá mynd af því hvernig hið fordæmalausa ár 2020 kemur út fyrir útflutning á sjávarafurðum.

 

Deila frétt á facebook