Sjávarafurðir: Um 6% aukning í október

5. nóvember, 2021

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 26,6 milljörðum króna í október samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í gærmorgun. Í október í fyrra nam verðmæti útfluttra sjávarafurða 26,9 milljörðum króna og er því um rétt rúmlega 1% samdrátt að ræða á milli ára í krónum talið. Á föstu gengi er hins vegar um 6% aukningu að ræða þar sem gengi krónunnar var að jafnaði um 7% sterkara í október en í sama mánuði í fyrra.

Dágóð aukning á fiskimjöli og lýsi
Í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar er ekki sundurliðað niður á einstaka tegundir, heldur einungis vinnsluflokka. Þar má sjá að í ofangreindri aukningu í október, miðað við fast gengi, munar mest um þá tvöföldun sem var á útflutningsverðmæti á lýsi. Nam útflutningsverðmæti þess rúmlega 2,5 milljörðum króna í október. Eins var dágóð aukning á útflutningsverðmæti á fiskimjöli á milli ára, eða sem nemur um 45%. Útflutningsverðmæti þess nam 2,0 milljörðum króna í október. Samanlagt nam útflutningsverðmæti á fiskimjöli og lýsi 4,5 milljörðum króna í október. Eins var talsverð aukning í útflutningsverðmætum á frystum heilum fiski á milli ára, eða sem nemur um 35%. Aukninguna má fremur rekja til þess að útflutningsverðmæti á frystum heilum fiski var óvenjulítið í október í fyrra miðað við fyrri ár. Nam útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski 3,9 milljörðum króna í mánuðinum. Útflutningsverðmæti afurðaflokksins „aðrar sjávarafurðir“ nam svo rúmlega 1,9 milljörðum króna í október og jókst um tæp 27% á milli ára.

Útflutningsverðmæti annarra afurðaflokka en taldir eru upp hér á undan dróst saman á milli ára í október. Þannig var um 9% samdráttur í útflutningsverðmætum ferskra afurða og frystra flaka. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða dróst svo saman um rúm 15% og verðmæti útfluttrar rækju um 17%. Þessa sundurliðun má sjá á myndinni hér fyrir neðan, sem sýnir útflutningsverðmæti sjávarafurða í október undanfarinn áratug, reiknað á föstu gengi miðað við október í ár.


Útflutningsverðmæti ferskra afurða aldrei meira
Sé tekið mið af fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 240 milljarða króna. Það er ríflega 9% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Af einstaka afurðaflokkum munar þar mest um þá miklu aukningu sem orðið hefur á útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“. Er útflutningsverðmæti þess afurðaflokks komið í 27 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins samanborið við 14 milljarða króna á sama tímabili í fyrra, reiknað á sama gengi. Þá myndarlegu aukningu má rekja til loðnu, enda teljast loðnuhrogn til þessa afurðaflokks en nánari umfjöllun um þau má sjá í nýlegri grein á Radarnum. Loðnan skýrir einnig þá 19% aukningu sem orðið hefur á útflutningsverðmætum á heilfrystum fiski á milli ára. Að lokum má nefna að nokkur aukning hefur verið á útflutningsverðmætum ferskra afurða á árinu, eða sem nemur rúmlega 9%. Er verðmæti þeirra komið í 71 milljarð króna á fyrstu 10 mánuðum ársins og hefur aldrei áður verið meira á því tímabili, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan.

 

Deila frétt á facebook