Sjávarafurðir: Útflutningur í takti við fyrstu tölur

3. nóvember, 2020

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 29,6 milljörðum króna í september. Það er í samræmi við bráðabirgðatölur Hagstofunnar og fjallað er um á Radarnum. Þetta er rúmlega 26% aukning í krónum talið frá september í fyrra. Aukningin í erlendri mynt er minni vegna lækkunar á gengi krónunnar á tímabilinu, eða sem nemur um 10%. Af einstaka tegundum munaði mest um þorskinn í september. Nam útflutningsverðmæti þorskafurða í mánuðinum 12,6 milljörðum króna, sem er 26% aukning á milli ára í erlendri mynt.


Aukning í krónum en samdráttur í erlendri mynt
Á fyrstu 9 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 196 milljarða króna samanborið við um 192 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það er rétt rúmlega 2% aukning í krónum talið á milli ára. Þessi lítilsháttar hækkun skrifast að öllu leyti á þá lækkun sem orðið hefur á gengi krónunnar, enda mælist rúmlega 7% samdráttur í útflutningsverðmætum sjávarafurða á tímabilinu í erlendri mynt. Þann samdrátt má að stærstum hluta rekja til samdráttar í útfluttu magni á fyrri hluta árs, en eins hefur afurðaverð lækkað og hafa áhrifin  orðið æ meiri eftir því sem liðið hefur á árið. Vart þarf að nefna að hér gætir áhrifa COVID-19, en líkt og við höfum fjallað um á Radarnum þá hefur sjávarútvegur ekki farið varhluta af því ástandi.

Þorskurinn fyrirferðamikill
Útflutningsverðmæti þorskafurða er komið í tæpa 98 milljarða króna á fyrstu 9 mánuðum ársins, eins og sjá má á myndinni hér á undan. Það er um 4% aukning í útflutningsverðmætum þorskafurða frá sama tímabili í fyrra, mælt í erlendri mynt. Er verðmæti þorskafurða þar með 50% af heildarverðmætum útfluttra sjávarafurða á árinu.


Þrátt fyrir að þorskur sé og hafi verið stærsta einstaka tegundin í útflutningsverðmætum sjávarafurða, þá er ofangreind hlutdeild óvenju há í ár. Á sama tímabili í fyrra var hún 45% og á fyrstu árum þessa áratugar var hún í kringum 31%. Þessi aukna hlutdeild skýrist af mörgum þáttum. Má hér fyrst nefna þá aukningu sem orðið hefur á aflamarki þorsks undanfarinn áratug, sem er árangur sem náðst hefur með minnkandi sókn í stofninn (sjá nánar hér). Þessi aukna hlutdeild kemur þó ekki af hinu góða einu saman, enda er hún einnig vegna samdráttar í útflutningsverðmætum annarra tegunda. Ber hér hæst að nefna loðnubrest í upphafi árs, en sala loðnubirgða vóg nokkuð drjúgt í útflutningstölum síðasta árs en verður eðlilega ekki endurtekin í ár. Eins hefur COVID-19 faraldurinn, með tilheyrandi sóttvarnaraðgerðum víða um heim, dregið verulega úr spurn eftir ýmsum tegundum, og er hér nærtækast að nefna ufsa. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá helstu tegundirnar, að þorski undanskildum. Gefur auga leið að samdráttur hefur orðið á milli ára í flestum tilvikum.

Óvenjulegir tímar leiða til óhefðbundinna leiða
Þrátt fyrir að útflutningsverðmæti þorskafurða hafi aukist á milli ára þýðir það ekki að COVID-19 hafi ekki haft nein áhrif á framleiðslu og sölu á þorskafurðum. Óvissan á mörkuðum hefur verið veruleg víða um heim í kjölfar sóttvarnaraðgerða, með tilheyrandi lokunum á veitingastöðum og hótelum, svo fátt eitt sé nefnt. Eins hafa sóttvarnaraðgerðir hér heima haft áhrif á afurðavinnslu þótt íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa lagt ríka áherslu á að vinnsla sé að langstærstum hluta áfram hér á landi. COVID-19 hefur þannig sett strik í reikninginn og hefur meðal annars leitt til þess að talsvert meira hefur verið flutt út af heilum ferskum þorski en í venjulegu árferði. Sá sveigjanleiki er þó vissulega nauðsynlegur í ástandi sem þessu. Sú aukning skýrist þó einnig að hluta til af því að ein stærsta fiskvinnsla landsins, fiskvinnsla Brims á Norðurgarði, var lokuð frá því seint í apríl til júlíloka vegna endurnýjunar á tækjum og húsnæði.  Hvað sem þessu líður er óhætt að segja að sú ríka áhersla sjávarútvegsfyrirtækja, að vinna þorskafurðir hér heima, skín nokkuð vel í gegn í framleiðslu og útflutning á þorskafurðum á þessum fordæmalausum tímum.
 

 

Deila frétt á facebook