Sjávarafurðir: Veruleg aukning í júní

6. júlí, 2020

Alls voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 22 milljarða króna í júní samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Þetta er um 42% aukning í krónum talið miðað við júní í fyrra, en 32% mælt í erlendri mynt. Þessa myndarlegu aukningu má fyrst og fremst rekja til grunnáhrifa, en útflutningsverðmæti sjávarafurða í júní í fyrra voru óvenju lítil, hvort sem talið er í krónum eða erlendri mynt. Sveiflur í gengi krónunnar spila jafnframt stóra rullu í útflutningsverðmætum, en það náði sínu hæsta gildi frá hruni um miðjan júní árið 2017. Í raun var útflutningsverðmæti sjávarafurða hærra bæði í júní árið 2017 og 2018 en í ár sé miðað við fast gengi.

Um 43% af vöruútflutningi
Miðað við ofangreindar tölur er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í tæpa 127 milljarða króna á fyrri árshelmingi samanborið við tæplega 128 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það er rétt um 1% samdráttur í útflutningsverðmæti í krónum talið á milli ára en rúm 8% í erlendri mynt. Verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi í heild var um 296 milljarðar króna á fyrri árshelmingi samanborið við 307 milljarða á sama tímabili í fyrra. Hér er útflutningur á skipum og flugvélum, sem eru einskiptisliðir, undanskilinn en slíkur útflutningur var verulegur í byrjun síðasta árs. Hlutdeild sjávarafurða í vöruútflutningi á þann kvarða er um 43% á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við tæp 42% á sama tímabili í fyrra. Hefur hlutdeild sjávarafurða ekki verið stærri frá árinu 2016, þrátt fyrir mikla aukningu í útflutningi á eldisafurðum. Það skýrist einkum af samdrætti í útflutningi á annarri vöru, sér í lagi á áli.

 

Deila frétt á facebook