Sjávarafurðir: Útflutningsverðmæti svipað á milli ára í febrúar

4. mars, 2021

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 21,5 milljörðum króna í febrúar samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Það er um 9% aukning í krónum talið miðað við febrúar í fyrra. Í erlendri mynt mælist hins vegar lítilsháttar samdráttur vegna lækkunar á gengi krónunnar á tímabilinu, eða sem nemur tæpu 1%. Þróunin er nokkuð misjöfn á milli afurðaflokka eins og alla jafnan er. Þannig var ágætis aukning í útflutningsverðmætum á heilum frystum fiski á milli ára í febrúar, eða sem nemur um 18% í erlendri mynt. Eins var dágóð aukning á útflutningsverðmætum ferskra sjávarafurða á tímabilinu, eða rúmlega 14% aukning á sama kvarða. Voru ferskar afurðir um 28% af útflutningsverðmætum sjávarafurða alls í febrúar, en það hlutfall hefur ekki áður mælst svo hátt í þeim mánuði. Aukin hlutdeild ferskra afurða er í takti við þá þróun sem verið hefur undanfarin ár sem felst í aukinni áherslu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á ferskar afurðir. Af einstaka afurðaflokkum var samdrátturinn á milli ára mestur í útflutningi á rækju og svo fiskimjöli. Var útflutningsverðmæti rækju rúmlega 72% minna í erlendri mynt nú í febrúar en í sama mánuði í fyrra og verðmæti fiskimjöls um 59% minna.

Tæplega 8% samdráttur á milli ára
Sé tekið mið af fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í tæpa 39 milljarða króna. Í krónum talið er um 2% aukningu að ræða en á föstu gengi mælist hins vegar samdráttur upp á tæp 8%. Hefur útflutningsverðmæti langflestra afurðaflokka dregist saman á milli ára, það er að verðmæti ferskra afurða, lýsis og svo annarra sjávarafurða undanskyldum. Í janúar hafði hvort tveggja verið samdráttur í magni útfluttra afurða á milli ára og eins höfðu langflestar afurðir lækkað í verði á tímabilinu í erlendri mynt. Ekki er hægt að greina slík áhrif fyrir febrúar en ætla má að svipuð þróun hafi verið upp á teningnum hvað afurðaverð áhrærir. Sjávarafurðir voru alls um 38% af verðmæti vöruútflutnings á tímabilinu, sem er svipað og það hefur verið að jafnaði undanfarinn áratug.  

 

Deila frétt á facebook