Sjávarútvegur – hornsteinn í héraði
11. maí, 2022
Í fréttabréfi á Radarnum í gær mátti sjá að atvinnutekjur einstaklinga af hefðbundnum störfum í sjávarútvegi, veiðum og vinnslu, dreifast víða um land. Í raun er engin atvinnugrein með jafnari dreifingu atvinnutekna um landið en sjávarútvegur. Hversu mikið hann vegur á hverju svæði fer vitaskuld eftir heildaratvinnutekjum íbúa þar.
Vegur þyngst á Vestfjörðum
Af einstaka landshlutum vegur sjávarútvegur þyngst á Vestfjörðum. Þar hafa atvinnutekjur einstaklinga af veiðum og vinnslu staðið undir um fjórðungi atvinnutekna á svæðinu undanfarin ár. Hlutfallslega vegur hann minnst á höfuðborgarsvæðinu, eða innan við 2%. Áhugavert er að sjá að Suðurnes eru eini landshlutinn þar sem vægi atvinnutekna af vinnslu er umfram vægi veiða. Aukning sem orðið hefur á ferskfiskvinnslu hefur aukið enn á mikilvægi samgangna og nálægð við flutningsleiðir. Staðsetning Keflavíkurflugvallar hefur því gert Suðurnes að fýsilegum kosti fyrir botnfiskvinnslu.
Áhrif sjávarútvegs á einstaka svæðum eru þó öllu meiri en beint umfang hans gefur til kynna. Ástæðan er sú að sjávarútvegur er grunnstoð í mörgum byggðarlögum víða um land og reyndar einn helsti grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Fjöldi fyrirtækja reiðir sig á starfsemi sjávarútvegs og er umfang hans því öllu meira en tölurnar á myndinni hér fyrir neðan gefa til kynna. Þar að auki hefur mikill vöxtur í nýsköpun og tækni í sjávarútvegi á undanförnum árum fjölgað atvinnutækifærum fyrir sérmenntað fólk á landsbyggðinni. Mörg nýsköpunarfyrirtæki eru háð staðsetningu sjávarútvegsfyrirtækja eins og þau sem vinna úr ýmsu fersku hráefni sem fellur til frá sjávarútvegi. Má þar til dæmis nefna fiskroð, rækjuskel og annað hráefni sem áður var hent.
Vöxtur ferðaþjónustu og gengisstyrking krónunnar
Á myndinni hér á undan blasir við að vægi atvinnutekna af veiðum og vinnslu hefur verið mun minna undanfarin ár en í upphafi tímabilsins. Það á við um alla landshluta. Ástæðan er fyrst og fremst mikill vöxtur í ferðaþjónustu frá árinu 2010 til ársins 2018. Það dregur eðlilega úr vægi annarra atvinnugreina sem vaxa ekki jafn hratt á sama tíma, eins og sjávarútvegs, þar sem vöxtur takmarkast af sjálfbærri nýtingu á fiskistofnum. Stóraukinn ferðamannastraumur leiddi jafnframt til verulegrar styrkingar á gengi krónunnar sem náði sínu hæsta gildi frá hruni um mitt ár 2017. Sveiflur í gengi krónunnar hafa mun meiri áhrif á atvinnutekjur í fiskveiðum en öðrum atvinnugreinum því laun sjómanna eru beintengd tekjum sjávarútvegsfyrirtækja sem selja um 98% af afurðum sínum á alþjóðamarkaði. Hækkun á gengi krónunnar hafði því einnig þau áhrif að vægi atvinnutekna í sjávarútvegi, einkum veiðum, dróst hratt saman. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá tengslin á milli atvinnutekna í fiskveiðum og gengi krónunnar.
Jákvæð þróun
Vægi atvinnutekna í veiðum og vinnslu samanlagt dróst mest saman á Vestfjörðum og Suðurlandi á ofangreindu tímabili. Minna vægi á Suðurlandi má að langstærstum hluta rekja til ferðaþjónustunnar. Áhrif aukinna umsvifa hennar gætti vissulega á Vestfjörðum en áhrifin þar voru þó öllu minni en í flestum öðrum landshlutum. Þar bætti fiskeldið hins vegar við sig en stærsti hluta atvinnutekna í þeirri atvinnugrein er á Vestfjörðum. Fiskeldi, eitt og sér, stóð undir rúmlega 5% af atvinnutekjum á Vestfjörðum á árinu 2020 samanborið við rúmt 1% árið 2012. Fiskeldi er síður háð duttlungum náttúrunnar en sjávarútvegur og því kærkomin búbót fyrir atvinnulífið á svæðinu.
Þegar öllu er á botninn hvolft er jákvætt að vægi veiða og vinnslu minnkar. Einhæft atvinnulíf getur verið brothætt fyrir margar byggðir og er í raun ein af fjölmörgum ástæðum fyrir byggðaröskun á einstaka svæðum á landsbyggðinni. Minna vægi sjávarútvegs þýðir þó ekki að verðmætasköpun í sjávarútvegi sé að dragast saman, þvert á móti. Minna vægi veiða og vinnslu í atvinnutekjum er vísbending um fjölbreyttara atvinnulíf víða um land sem treystir betur grunnstoðir hagsældar.
Nánar um þetta og meira til má sjá á mælaborði Radarsins.