Veiðigjald er hluti af stóru skattspori
18. nóvember, 2024
Íslenskur sjávarútvegur á allt undir að standast samkeppni á alþjóðavettvangi þar sem um 98% af íslensku sjávarfangi er selt. Á þeim markaði verða stærstu íslensku sjávarútvegsfyrirtækin seint talin stór. Erlendir keppinautar eru margir hverjir margfalt stærri en öll íslensku fyrirtækin samanlögð. Langflestir þessara sömu keppinauta njóta aukinheldur opinberra styrkja, niðurgreiðslna eða undanþága frá hefðbundnum sköttum sem aðrar atvinnugreinar þurfa að standa skil á í heimalandi. Íslenskur sjávarútvegur sker sig úr, enda nýtur hann engrar slíkrar sérmeðferðar heima fyrir og greiðir þar að auki sérstakt gjald fyrir auðlindanýtingu, veiðigjald, sem er nánast óþekkt í öðrum löndum.
Í aðdraganda þingkosninga vill þessi sérstaða íslensks sjávarútvegs oft gleymast. Umræðan fer iðulega öll að snúast um veiðigjald, líkt og það sé eina framlag sjávarútvegs í hina opinberu sjóði. Það er vissulega fjarri lagi eins og verður rakið hér á eftir. Þá vilja jafnframt sumir meina að veiðigjald geti hækkað upp úr öllu valdi án þess að bitna á samkeppnishæfni sjávarútvegs. Það liggur í hlutarins eðli að hækkun á hvers kyns álögum á fyrirtæki í sjávarútvegi, eða aðrar útflutningsgreinar, kemur niður á samkeppnishæfni þegar slíkar álögur eru ekki til staðar hjá erlendum keppinautum.
Greiða tugi milljarðar í opinber gjöld
Árlega greiða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki tugi milljarða króna í opinber gjöld. Þau greiða veiðigjald sem nemur 33% af afkomu fiskveiða. Að auki greiða þau tekjuskatt af hagnaði, líkt og önnur fyrirtæki hér á landi. Þá greiða þau 6,35% tryggingagjald af launum starfsmanna, en tryggingagjald vegna sjómanna er enn hærra. Sérstök trygging fyrir sjómenn nemur 0,65%, sem leggst ofan á tryggingagjaldið. Einnig greiða sjávarútvegsfyrirtæki afla- og hafnargjöld, kolefnisgjald, skatta af eignum, mótframlag í lífeyrissjóð og ýmis gjöld tengd stéttarfélögum. Til viðbótar innheimta fyrirtækin og standa skil á sköttum og gjöldum fyrir opinbera aðila, sem eru ekki gjöld þeirra sjálfra en grundvallast á rekstri og þeim verðmætum sem af starfsemi fyrirtækjanna hlýst með beinum hætti. Má hér nefna tekjuskatt og útsvar af launum starfsmanna, auk lífeyrisgreiðslna.
Allur fyrrgreindur kostnaður er hluti af skattspori atvinnugreinarinnar, sem felur í sér alla skatta og opinber gjöld sem verða til vegna verðmætasköpunar sjávarútvegsfyrirtækja. Áætla má að skattspor sjávarútvegsins hafi numið um 89 milljörðum króna á árinu 2023. Það er ljóst að þeir rúmu 10 milljarðar sem veiðigjald skilaði í ríkissjóð á árinu 2023 er einungis hluti af því. Sé tekið mið af opinberum gjöldum sem sjávarútvegsfyrirtækin greiddu af rekstri var veiðigjaldið um 20%. Sé hins vegar tekið mið af skattspori sjávarútvegs var veiðigjaldið um 11%.
Það er allra hagur að vel gangi
Skattspor sjávarútvegs á árinu 2023 er eitt það stærsta í sögunni. Það er ekki vegna þess að fjárhæð veiðigjaldsins hafi verið sú hæsta, heldur vegna þess að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja gekk heilt á litið vel, greinin skilaði góðri afkomu og laun sjómanna og fiskverkafólks hækkuðu. Þegar vel gengur í rekstri fyrirtækja og afkoma er góð þá skilar það sér í hærri tekjum til ríkissjóðs. Þegar laun hækka þá hefur það ekki einungis jákvæð áhrif á hag launafólks, heldur einnig ríkissjóð, sveitarfélög, stéttarfélög og lífeyrissjóði í gegnum launatengd gjöld. Af þessu má vera ljóst að þær miklu fjárfestingar sem íslenskur sjávarútvegur hefur staðið í á undanförnum árum er að skila sér í auknum tekjum til ríkissjóðs og samfélagsins alls.
Vert er að nefna að framangreint skattspor tekur aðeins til sjávarútvegsfyrirtækjanna sjálfra en ekki tengdra greina. Má þar nefna fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn beint eða nýsköpunar- og tæknifyrirtæki sem nýta hliðarafurðir úr afla eða þróa hátæknibúnað sem snýr að meðferð á afla eða afurðavinnslu. Skattspor þessara fyrirtækja hvílir einnig á samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Yrði það meðtalið væri skattsporið umtalsvert hærra, enda skapa þessi fyrirtæki mikil verðmæti fyrir íslenskt samfélag.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru vel rekin sjávarútvegsfyrirtæki, sem standast alþjóðlega samkeppni og hafa borð fyrir báru til þess að fjárfesta í aukinni verðmætasköpun til framtíðar, grundvallarforsenda þess að stuðla að auknum tekjum ríkissjóðs og samfélagsins af sjávarauðlindinni. Þungamiðjan í umræðunni á hinum póltíska vettvangi þegar kemur að málefni sjávarútvegs ætti því að beinast að þessum lykilbreytum.