Skjótt skipast veður í lofti

27. apríl, 2023

Verð á sjávarafurðum lækkaði um 0,5% í erlendri mynt í mars frá fyrri mánuði samkvæmt verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofan birti í vikunni. Þetta er fimmti mánuðurinn í röð sem verð á sjávarafurðum lækkar á milli mánaða og hefur þar með verulega dregið úr árstakti verðvísitölunnar, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Þannig náði tólf mánaða takturinn hámarki síðastliðið sumar þegar hann fór í rúm 26%. Frá þeim tíma hefur dregið nær stöðugt úr árstaktinum sem nú í mars var kominn í 7,5%.


Sviptingar á mörkuðum

Undanfarinn áratug hefur verðvísitala sjávarafurða oftar hækkað en lækkað í mars frá fyrri mánuði. Í febrúar hefur lækkunin á milli mánaða hins vegar verið árviss. Þá lækkun má fyrst og fremst rekja til þess að framboð Norðmanna á þorski úr Barentshafi eykst verulega á þessum árstíma, sem eðlilega setur þrýsting til lækkunar á verði þorskafurða sem og annarra botnfiskafurða frá Íslandi, sér í lagi ferskra. Það er einmitt ástand á mörkuðum erlendis sem hefur úrslitaáhrif á verð íslenskra sjávarafurða enda er um 98% af þeim fluttar út og seldar á mörkuðum erlendis. Í mars í fyrra hafði verðvísitala sjávarafurða í heild hækkað um rúm 4% á milli mánaða og verðvísitala botnfiskafurða um rúm 5%. Sú hækkun var óvenjumikil en hana mátti að stærstum hluta rekja til innrás Rússa í Úkraínu mánuðinn á undan. Eins og mörgum er ljóst var ástandið á mörkuðum í fyrra heilt yfir einkar hagfellt þar sem óvissa um framboð sjávarafurða í kjölfar viðskiptaþvingana vesturlanda gegn Rússlandi leiddi til aukinnar eftirspurnar eftir íslenskum afurðum og stuðlaði þannig að frekari verðhækkunum. En fyrir innrás Rússa hafði verð á sjávarafurðum farið hækkandi í takt við batnandi aðstæður á mörkuðum.


Spá lækkun á verði sjávarafurða

Í heild lækkaði verðvísitala botnfiskaafurða um 0,4% á milli mánaða í mars, mælt í erlendri mynt. Á milli ára hefur hún hækkað um 7,5% og er tólf mánaða takturinn jafnframt komið hressilega niður frá því að hann náði hámarki í rúmu 31% í júní í fyrra. Tólf mánaða takturinn var jákvæður í öllum undirliðum verðvísitölu botnfiskafurða í mars að undanskildri ferskri ýsu, en verð á henni var rúmlega 10% lægra nú í mars en á sama tíma í fyrra. Framvindan er eðlilega nokkuð misjöfn eftir einstaka afurðaflokkum og tegundum, enda eru botnfiskafurðir afar fjölbreyttar og fluttar út til mismunandi landa og á ólíka markaði þar sem ástandið getur verið mismunandi.

Myndin hér að neðan sýnir tólf mánaða breytingu á verði botnfiskafurða í erlendri mynt frá ársbyrjun 2020. Þar má sjá að breytingin er áberandi mest á verði sjófrystra afurða sem í maí í fyrra höfðu hækkað um tæp 67% á milli ára. Nú í mars var verð á sjófrystum afurðum miðað við verðvísitöluna á svipuðu róli og það var á sama tíma í fyrra og virðist því sú hækkun sem þær viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum leiddu til hafa gengið að stórum hluta til baka. Þá var tólf mánaða taktur annarra vinnsluflokka botnfisktegunda jákvæður um tæp 5 -19% í mars. Þó viðsnúningurinn á 12 mánaða taktinum sé ekki eins ýktur og í tilfelli sjófrystra afurða virðist leitnin heilt á litið vera í sömu átt. Það rímar ágætlega við nýjustu spár, en bæði Hagstofan og Seðlabankinn spá lækkun á verði sjávarafurða á næstu misserum vegna lakari efnahagshorfa í helstu viðskiptalöndum okkar. Hvort að það verður raunin ræðst svo eðlilega á endanum á efnahagsframvindunni í heiminum sem mikil óvissa ríkir um. Þar vega stríðsátökin í Úkraínu, verðbólga og vaxtahækkanir þungt. Af þessu má vera ljóst að það er sjaldan á vísan að róa í íslenskum sjávarútvegi.

 

Deila frétt á facebook