Um fjórðungs aukning í maí
8. júní, 2022
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 34,5 milljarði króna í maí samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Það er um 21% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Vegna 5% hækkunar á gengi krónunnar er aukningin ívið meiri í erlendri mynt, eða sem nemur rúmum 26%.
Hrognin farin að telja
Útflutningsverðmæti allra afurðaflokka, að heilum frystum fiski undanskildum, jókst á milli ára í maí. Mestu munar um þá aukningu sem er á útflutningi á frystum flökum, en verðmæti þeirra námu alls um 8,4 milljörðum króna í mánuðinum. Það er 51% aukning á föstu gengi frá maí í fyrra. Eins er veruleg aukning í útflutningsverðmætum ferskra afurða. Þau námu 9 milljörðum króna í maí sem er 45% aukning frá sama mánuði í fyrra. Jafnframt er áfram mikil aukning í útflutningi á fiskimjöli. Nam útflutningsverðmæti þess rúmlega 3,2 milljörðum króna í maí, sem er 143% aukning á milli ára. Útflutningsverðmæti á lýsi nam um 1,1 milljarði króna, sem er um 71% aukning á milli ára á sama kvarða.
Sundurliðun á þessu má sjá á myndinni hér fyrir neðan, sem sýnir útflutningsverðmæti sjávarafurða í maí undanfarinn áratug, reiknað á föstu gengi miðað við gengisvísitölu Seðlabankans. Eins og fjallað var um í fréttabréfi á Radarnum í gær, þá eru loðnuhrogn seinni á ferðinni í útflutningstölum Hagstofunnar í ár en í fyrra. Þó fóru að birtast af talsverðum krafti í útflutningstölum í apríl í fyrra, en voru ekki nærri eins fyrirferðarmikil í apríl í ár. Það getur stafað af mörgum þáttum, eins og þeim flöskuhálsum sem myndast hafa í flutningum á milli landa. Nú í maí virðist þau þó koma sterk inn, en þau koma við sögu í flokknum „aðrar sjávarafurðir“ á myndinni hér fyrir neðan.
Verðmætin ekki meiri á þessari öld
Á fyrstu 5 mánuðum ársins eru útflutningsverðmæti sjávarafurða þar með komin í 141 milljarð króna. Það er 19% aukning frá sama tímabili í fyrra, mælt í erlendri mynt. Hafa útflutningsverðmæti á fyrstu 5 mánuðum ársins aldrei verið meiri eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná, sem er frá árinu 2002. Á það bæði við um í krónum talið og í erlendri mynt og jafnframt þegar tölurnar hafa verið leiðréttar fyrir verðbólgu erlendis.
… en vægi ekki verið minna
Þrátt fyrir þessa myndarlegu aukningu er vægi sjávarafurða í verðmæti vöruútflutnings á fyrstu 5 mánuðum ársins talsvert minna í ár en í fyrra og í raun það minnsta sem það hefur áður verið á þessari öld. Það nemur nú rúmlega 35% af verðmæti vöruútflutnings samanborið við tæplega 43% á sama tímabili í fyrra. Það er augljóslega af þeirri ástæðu að verðmæti annars vöruútflutnings er að aukast umfram sjávarafurðir, en sú aukning sem hefur átt sér stað í ár má að stærstum hluta rekja til verðhækkana fremur en magnaukningar enda virðist allt vera að hækka. Þar munar mest um álið, en útflutningsverðmæti þess er komið í rúma 161 milljarð króna á fyrstu 5 mánuðum ársins samanborið við tæpa 100 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.