Útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei verið meira

12. maí, 2022

Á fyrstu 4 mánuðum ársins hafa verið fluttar út eldisafurðir fyrir 17,2 milljarða króna. Það er veruleg aukning frá sama tímabili í fyrra, eða sem nemur rúmum 32% í krónum talið. Þar sem gengi krónunnar var að jafnaði tæplega 5% sterkara á fyrstu 4 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra er aukningin nokkuð meiri í erlendi mynt eða sem nemur rúmum 38%. Vart þarf að taka fram að útflutningsverðmæti eldisafurða hefur aldrei áður verið meira á fyrsta þriðjungi ársins. Verðmætin eru tæplega 15% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á tímabilinu og það hlutfall hefur aldrei áður verið hærra.


Má alfarið rekja til laxeldis
Skipting niður á tegundir liggur ekki fyrir, þar sem einungis er búið að birta fyrstu bráðabirgðatölur um vöruskipti í apríl. Þá eru einungis útflutningsverðmæti eldisafurða í heild birt en ekki verðmæti niður á einstaka tegundir eða magn. Sé litið á tölur fyrir fyrstu 3 mánuði ársins er þó nokkuð ljóst að ofangreinda aukningu má alfarið rekja til laxeldis. Útflutningsverðmæti af eldislaxi voru komin í 13,5 milljarða króna á fyrstu 3 mánuðum ársins sem er 75% aukning á föstu gengi frá sama tímabili í fyrra. Á hinn bóginn hefur útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, dregist saman um 45% á sama tímabili. Útflutningsverðmæti silungs á fyrstu þremur mánuðum ársins nemur rétt rúmlega 900 milljónum króna en það hefur ekki verið minna frá árinu 2016. Einnig dregst útflutningsverðmæti frjóvgaðra laxahrogna saman en þau eru verðmæt hátækniframleiðsla. Samdrátturinn þar nemur um 37% á föstu gengi.


Hátt í 40% af þorskinum
Eins og áður segir er útflutningsverðmæti eldislax á fyrstu þremur mánuðum ársins komið í 13,5 milljarða króna. Á fyrsta ársfjórðungi hefur laxinn skilað næst mesta útflutningsverðmæti af öllum fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi. Þorskurinn er vitaskuld í fyrsta sæti en samhliða auknu laxeldi hefur munurinn á milli þorsks og lax minnkað stöðugt á undanförnum árum. Sem hlutfall af útflutningsverðmæti þorskafurða er eldislax kominn í 37% og hefur aldrei áður verið hærra.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að fiskeldi er orðið afar veigamikið í útflutningi Íslendinga og mun vafalaust verða enn fyrirferðameira þegar fram líða stundir. Fiskeldi hefur burði til að vaxa að magni til á skömmum tíma ólíkt veiði á villtum fiski sem byggist á sjálfbærri nýtingu á fiskistofnum. Fólksfjölgun í heiminum ýtir undir aukna spurn eftir próteini sem ómögulegt er að mæta með hefðbundnum veiðum á villtum fiski. Því felast veruleg tækifæri í fiskeldi fyrir Íslendinga. Það eykur fjölbreytni í útflutningi og styrkir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélög víða um land.

 

 

Deila frétt á facebook