Útflutningsverðmæti sjávarafurða eykst

4. febrúar, 2020

 Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 260 milljörðum króna á árinu 2019 samanborið við 240 milljarða árið á undan. Jafngildir það rúmlega 8% aukningu. og hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða ekki verið meira í krónum talið frá árinu 2015. Lækkun á gengi krónunnar upp á rúm 8% milli ára hafði talsverð áhrif til aukningar á verðmætum í krónum talið, en að teknu tilliti til þess stóð útflutningsverðmæti sjávarafurða nánast í stað á milli ára.

Hagstæð verðþróun vegur upp samdrátt í magni

Þannig að þrátt fyrir talsverðan samdrátt í magni útfluttra sjávarafurða var útflutningsverðmæti þeirra í fyrra nánast á pari við árið 2018. Ástæðan er hagstæð verðþróun á sjávarafurðum erlendis, en verð þeirra hefur hækkað nær samfellt frá ársbyrjun 2018. Var verð útfluttra sjávarafurða 8% hærra í erlendri mynt á árinu en árið á undan og náði hækkunin yfir nær allar tegundir. Vóg því hagstæð verðþróun sjávarafurða í erlendri mynt upp þann ríflega 7% samdrátt sem varð á magni, sem einna helst má rekja til loðnubrests. 

Tölur um magn og verðmæti útfluttra sjávarafurða hafa verið uppfærðar á Radarnum. Þar má meðal annars sjá þróun undirliða, verðmæti og magn eftir tegundaflokkun og verðmæti eftir svæðum.

 

 

Deila frétt á facebook