Veiðigjald: Hátt í þriðjungs aukning

30. nóvember, 2023

Alls greiddu sjávarútvegsfyrirtæki um 920 milljónir króna í veiðigjald í október samkvæmt tölum sem Fiskistofa birti í gær. Fjárhæð veiðigjaldsins er þar með komin í rétt rúma 8,8 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, en í þeirri fjárhæð er búið að draga frá þann afslátt sem veittur er af veiðigjaldinu. Um er að ræða hátt í þriðjungi hærri fjárhæð en fyrirtækin höfðu greitt í veiðigjald á sama tímabili í fyrra, en þá var heildarfjárhæð veiðigjaldsins komin í tæpa 6,7 milljarða króna.
 

Að vanda skila þorskveiðar hæstri fjárhæð í veiðigjald á fyrstu 10 mánuðum ársins, eða sem nemur um 3.277 milljónum króna. Það er aðeins lægri fjárhæð en veiðar á þorski skiluðu á sama tímabili í fyrra, en þá nam hún 3.434 milljónum króna. Það má alfarið rekja til þess að þorskaflinn var nú tæplega 12% minni á fyrstu 10 mánuðum ársins en hann var á sama tímabili í fyrra, eða um 171 þúsund tonn á móti tæpum 194 þúsundum. Hins vegar er upphæð veiðigjaldsins sem fyrirtækin þurfa að greiða fyrir hvert kíló af þorski sem berst að landi í ár hærri en hún var í fyrra, eða 19,17 krónur á móti 17,74 krónum. Fjárhæðin sem fyrirtækin greiða í veiðigjald af tiltekinni tegund er margfeldi afla og upphæð veiðigjaldsins.

Loðnuveiðar hafa skilað næsthæstri fjárhæð í veiðigjald á árinu, eða um 1.805 milljónum króna. Í fyrra þurftu fyrirtækin ekki að greiða veiðigjald af loðnu þar sem loðnubrestur var á árinu 2020, sem liggur til grundvallar útreikningi á veiðigjaldi á árinu 2022. Þegar engin loðna veiðist, þá er engin afkoma af veiðunum en upphæð veiðigjaldsins nemur 33% af afkomu. Í ár er upphæð veiðigjaldsins hins vegar 5,54 krónur á hvert kíló af loðnu sem landað er. Sú fjárhæð tekur mið af afkomu loðnuveiða á árinu 2021.

Veiðar á ýsu hafa svo skilað þriðju hæstu fjárhæðinni í veiðigjald í ár, eða sem nemur um 1.096 milljónum króna. Það er hátt í helmingi hærri fjárhæð en veiðar á ýsu skiluðu á fyrstu 10 mánuðum ársins í fyrra, eða 737 milljónum króna. Það má hvort tveggja rekja til þess að ýsuaflinn er rúmlega 28% meiri í ár en hann var á sama tímabili í fyrra og upphæð veiðigjaldsins á ýsu er hærri í ár en í fyrra, eða 19,82 krónur á hvert kíló á móti 17,11 krónum.

Í töflunni sem kemur fyrir hér neðst má sjá ítarlegri sundurliðun á veiðigjaldi fyrstu 10 mánuðum ársins í ár og í fyrra. Jafnframt má sjá hve mikill afsláttur hefur verið veittur af veiðigjaldi, en hver gjaldskyldur aðili fær 40% afslátt af fyrstu 7.867.192 krónunum sem hann greiðir í veiðigjald í ár.
 

Stefnir í rúma 10 milljarða

Í nýjum drögum að heildarlögum um sjávarútveg sem birt voru síðastliðinn föstudag, var áætlað að fjárhæð veiðigjaldsins án afslátta yrði um 9,4 milljarðar króna í ár. Það er nokkuð athyglisverð áætlun matvælaráðuneytis í ljósi þess að umrædd fjárhæð er nú þegar komin í rúma 9,2 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, en sé afslátturinn meðtalinn er fjárhæð veiðigjaldsins 8,8 milljarðar líkt og á undan greinir. Það er því ljóst að um verulegt vanmat er að ræða hjá ráðuneytinu. Hver heildarfjárhæð veiðigjaldsins verður í ár fer svo eftir lönduðum afla á síðustu tveimur mánuðum ársins. Gera má ráð fyrir að hún endi í rúmum 10 milljörðum króna, sem er þá um 10,5 milljarðar sé ekki tekið tillit til afsláttar. Í fyrra nam veiðigjald um 7,9 milljörðum króna, en rúmlega 8,3 milljörðum án afslátta.

Á allra næstu dögum má vænta þess að matvælaráðuneytið birti auglýsingu um hvert veiðigjaldið verður af hverri tegund á árinu 2024. Gjaldið er auglýst sem krónur á kíló landaðs óslægðs afla - sem er 19,17 krónur á þorsk í ár og 19,82 krónur á ýsu. Veiðigjald næsta árs tekur mið af afkomu fiskveiða á árinu 2022, sem heilt yfir var nokkuð gott ár í sjávarútvegi og betra en árið 2021. Má því leiða líkum að því að upphæð veiðigjaldsins verði hærri á flestum tegundum á árinu 2024 en það var í ár. 
 

 

Deila frétt á facebook