Verð sjávarafurða lækkar enn frekar

24. júní, 2020

Verð sjávarafurða lækkaði um 2,3% í erlendri mynt í maí frá fyrri mánuði samkvæmt verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Þetta er fjórði mánuðurinn í röð sem lækkun á sér stað og hefur tólf mánaða taktur vísitölunnar þar með tekið verulegan viðsnúning á örskömmum tíma, eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Þannig hækkaði verð á sjávarafurðum um 9,3% á milli ára í desember en í maí mælist 3,4% lækkun á milli ára.

Þetta kemur heim og saman við erfiðar aðstæður sem skapast hafa vegna COVID-19. Breyting hefur orðið á spurn eftir sjávarafurðum og talsverður þrýstingur hefur verið til verðlækkana. Framvindan er nokkuð misjöfn eftir afurðaflokkum, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þannig benda verðvísitölur botnfiskafurða til þess að landfrystar afurðir séu þær einu sem hafi haldið sjó á undanförnum mánuðum. Á hinn bóginn hefur verð á öðrum botnfiskafurðum lækkað nokkuð, eins og til að mynda á ferskum botnfiskafurðum sem höfðu hækkað um 12% á milli ára í janúar, mælt í erlendri mynt, en í maí var 12 mánaða taktur þeirra orðinn neikvæður um 2,4%.

Þess má geta að í þessari umfjöllun er stuðst við verðvísitölu sjávarafurða (VS) en ekki verðvísitölu útfluttra sjávarafurða (VÚS) sem Hagstofan heldur einnig utan um. Við fjöllum oftar um þá síðarnefndu (sjá hér), en báðar mæla verðþróun á íslenskum sjávarafurðum, en með ólíkri aðferðafræði og mismunandi gögnum og gefa því mismunandi niðurstöðu. Oftast nær hafa þær þó fylgst ágætlega að, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Nánari umfjöllun um vísitölurnar má sjá á Radarnum.

 

Deila frétt á facebook