Viðsnúningur á verði sjávarafurða

28. maí, 2020

Verð sjávarafurða lækkaði um 2,6% í erlendri mynt í apríl frá fyrri mánuði samkvæmt verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem lækkun á sér stað og hefur tólf mánaða taktur vísitölunnar þar með tekið verulegan viðsnúning á örskömmum tíma;  úr dágóðri hækkun í samdrátt. Þannig hafði verð sjávarafurða hækkað um 9,3% á milli ára í desember en í apríl mælist 0,1% samdráttur.  

Í takti við ástandið
Breytingin kemur heim og saman við þær aðstæður sem skapast hafa í kjölfar COVID-19, sem valdið hefur miklum usla í heimsbúskapnum og alþjóðaviðskiptum. Þetta leiddi til umtalsverðra breytinga á spurn eftir sjávarafurðum og talsverður þrýstingur var til verðlækkana. Ferðaþjónustan, sem þyngsta höggið hefur tekið, er til að mynda afar mikilvægur markaður fyrir matvæli, eins og ferskar og sjófrystar sjávarafurðir. Þegar ferðamennirnir hverfa er einsýnt að afleiðingarnar verða miklar, eins og  sjá má í nýlegri grein sem birt var á heimasíðu SFS.

Þess má geta að í þessari umfjöllun er stuðst við verðvísitölu sjávarafurða (VS) en ekki verðvísitölu útfluttra sjávarafurða (VÚS) sem Hagstofan heldur einnig utan um. Við fjöllum oftar um þá síðarnefndu (sjá hér), en báðar vísitölurnar mæla verðþróun á íslenskum sjávarafurðum, en með ólíkri aðferðafræði og mismunandi gögnum og gefa því mismunandi niðurstöðu. Oftast nær hafa þær þó fylgst ágætlega að, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Nánari umfjöllun um vísitölurnar má sjá á Radarnum.

 

Deila frétt á facebook