Vika 19: Útflutningsverðmæti sjávarafurða á pari

14. maí, 2020

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam tæplega 5,4 milljörðum króna í síðustu viku. Sömu viku í fyrra var verðmæti útfluttra sjávarafurða 4,6 milljarðar og er aukningin í krónum talið því dágóð, eða rúmlega 17%. Hana má þó nánast alla rekja til gengislækkunar krónunnar, sem hefur verið veruleg undanfarnar vikurnar. Var gengið 14% lægra í síðustu viku en sömu viku í fyrra. Útflutningsverðmæti sjávarafurða er þar með nánast á pari í viku 19 samanborið við sömu viku í fyrra, mælt í erlendri mynt; aukningin er rétt rúmlega 1%. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum úr tilraunatölfræði Hagstofunnar um vöruskipti fyrir viku 19 sem birtar voru í morgun.

Fimmtungs samdráttur vegna COVID-19
Á fyrstu 19 vikum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 86,3 milljarða króna samanborið við 91,0 milljarð á sama tímabili í fyrra. Jafngildir það samdrætti upp á rúm 5% í krónum talið en rúmum 11% í erlendri mynt. Þar af er samdrátturinn frá viku 13 til viku 19 á milli ára rúm 20% í erlendri mynt, en það er tímabilið sem áhrifa COVID-19 gætir á útflutning. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá uppsafnað útflutningsverðmæti sjávarafurða frá áramótum þar sem tekið hefur verið tillit til gengisáhrifa. Tölurnar eru því ekki þær sömu og hér í textanum en þróunin sú sama og lýst er í erlendri mynt. Verður áhugavert að fylgjast með framvindunni á næstu vikum en í viku 20 og 21 í fyrra varð talsverður kippur í útflutningi á sjávarafurðum, eins og sjá má á myndinni hér á undan. Fróðlegt verður að sjá hvort það sama verði uppi á teningnum nú.

Í febrúar gerði Seðlabankinn ráð fyrir því að útflutningsverðmæti sjávarafurða í ár yrði svipað og í fyrra. Gerði hann ráð fyrir að gengi krónunnar yrði örlítið lægra í ár, en ljóst má vera að sú spá er farin út um þúfur eftir þá miklu gengislækkun sem orðið hefur undanfarnar vikur. Jafnframt hafði bankinn gert ráð fyrir áframhaldandi hækkun á verði útfluttra sjávarafurða, en þar hefur ekki síður orðið breyting á og það til verri vegar.

 

Deila frétt á facebook