Vika 19: Verulegur samdráttur í útflutningi á eldisafurðum

14. maí, 2020

Útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða nam rúmlega 500 milljónum króna í síðustu viku. Sömu viku í fyrra var útflutningsverðmæti afurðanna 900 milljónir króna, og er því um 44% samdrátt að ræða á milli ára í krónum talið. Gengi krónunnar er mun lægra nú en á sama tíma í fyrra og er samdrátturinn þar með talsvert meiri í erlendri mynt, eða 52%. Þetta bendir til þess að verulegur samdráttur hafi verið í útflutningi á eldisafurðum í viku 19 samanborið við sömu viku í fyrra. En eins og við höfum fjallað um þá eru eldisafurðir langstærsti hluti útfluttra landbúnaðarafurða í tölum Hagstofunnar. Þó ber að halda til haga að útflutningur í viku 19 í fyrra var mjög mikill miðað við aðrar vikur, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Þó er erfitt að segja til um hvort að hann hafi verið eitthvað óvenjumikill þar sem gögn, aðeins til eins árs, eru til samanburðar. Auk þess sem verulegar sveiflur eru á milli vikna sem geta átt sér margar skýringar. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum úr tilraunatölfræði Hagstofunnar um vöruskipti fyrir viku 19 og birtar voru í morgun.
 


COVID-19 þurrkar út aukninguna
Á fyrstu 19 vikum ársins er útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða komið í 12,2 milljarða króna samanborið við 11,5 milljarða á sama tímabili í fyrra. Jafngildir það tæplega 6% aukningu í krónum talið. Aukninguna má að öllu leyti rekja til veikingar á gengi krónunnar enda stendur útflutningsverðmæti afurðanna í stað í erlendri mynt, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þess má geta að frá ársbyrjun og til og með viku 12 hafði útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða aukist um fimmtung á föstu gengi miðað við sama tímabil í fyrra. Virðist COVID-19 þar með hafa þurrkað út þá myndarlegu aukningu sem komin var.
 

 

Deila frétt á facebook