Fiskeldi: Ríflega fjórðungs aukning í október

14. nóvember, 2024

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam um 6,6 milljörðum króna í október. Það er 26% aukning miðað við október í fyrra á föstu gengi. Á fyrstu tíu mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða þar með komið í tæpa 42 milljarða króna. Það hefur aldrei verið meira á tilgreindu tímabili og er um 23% aukningu að ræða frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í október sem birtar voru síðustu viku.

Í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar er útflutningsverðmæti eldisafurða í heild einungis birt og því liggur ekki fyrir sundurliðun verðmæta niður á einstaka tegundir í októbermánuði. Vafalaust má þó rekja þessa myndarlegu aukningu nú í október til laxeldis, líkt og mánuðina á undan, sbr. nýlega umfjöllun á Radarnum.

 

Ákall um „eitthvað annað“

Sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður, svo sem álframleiðsla, og ferðaþjónusta hafa um áraraðir verið okkar langstærstu útflutningsgreinar. Það hefur því lengi verið ákall um „eitthvað annað“ þegar kemur að útflutningi, enda hvílir hagsæld Íslendinga á öflugum og fjölbreyttum útflutningsgreinum. Í þessu samhengi er því áhugavert að rýna í tölur um vöruútflutning, þar sem sjávarafurðir, ál og kísiljárn eru undanskilin.

 

Á þennan kvarða var verðmæti vöruútflutnings á fyrstu tíu mánuðum ársins hátt í þrefalt meira á föstu gengi en á sama tímabili árið 2015. Aukningin hefur verið sérstaklega mikil á allra síðustu árum, þá sér í lagi vegna umtalsverðrar aukningar í útflutningsverðmæti lyfja og lækningatækja, auk eldisafurða. Í krónum talið hefur aukningin verið mest í útflutningi á lyfjum og lækningatækjum undanfarinn áratug. Sé hins vegar tekið mið af hlutfallslegri aukningu, þá hefur hún hvergi verið meiri en í fiskeldi. Þannig voru útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu tíu mánuðum ársins ríflega sjöfalt meiri en þau voru á sama tímabili árið 2015, að teknu tilliti til gengisbreytinga. Ofangreind þróun í „öðrum vöruútflutningi“ er afar jákvæð enda stuðlar hún að aukinni verðmætasköpun hér á landi, skapar ný störf og styrkir stoðir útflutnings.

 

Ein helsta vonarstjarna í aukinni hagsæld þjóðarinnar

 

Eins og nýlega var fjallað um Radarnum, þá hefur ekki verið gefin út efnahagspá hér á landi að undanförnu án þess að minnst sé á fiskeldi, hvort sem það er í tengslum við útflutning eða fjárfestingu. Má hér nefna hagspár Íslandsbanka,  Landsbankans og Hagstofu Íslands. Allir þessir aðilar gera ráð fyrir auknum útflutningi á næstu árum og reikna með að sá vöxtur verði meðal annars knúinn áfram af auknum útflutningi eldisafurða. Það verður að teljast afar jákvætt, enda skapar fiskeldi fjölbreytt og vel launuð störf sem falla vel að því markmiði að Ísland verði áfram hálaunaland í alþjóðlegum samanburði með ein bestu lífskjör í heimi. Það skiptir nefnilega máli hvaða atvinnugreinar draga vagninn í hagkerfinu til framtíðar, eins og nýlega var fjallað um á Radarnum. Ef fram heldur sem horfir, þá mun fiskeldi gegna lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi um ókomin ár.

Deila frétt á facebook