Eldisafurðir: Annar stór mánuður í vændum?

5. nóvember, 2020

Útflutningsverðmæti eldis- og landbúnaðarafurða nam samanlagt 3,9 milljörðum króna í október samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti sem birtar voru í morgun. Það er aukning upp á rúm 2% í krónum talið miðað við útflutningsverðmæti afurðanna í október í fyrra. Á sama tímabili hefur gengi krónunnar lækkað um tæp 14% og mælist því talsverður samdráttur í útflutningsverðmætum afurðanna í erlendri mynt, eða tæp 12%.

Þar sem um er að ræða bráðabirgðatölur um vöruskipti í október, liggur ekki fyrir sundurliðun á útflutningsverðmætum eldis- og landbúnaðarafurða, einungis samanlagt verðmæti þeirra. Undanfarin misseri hafa verðmæti eldisafurða vegið þar langþyngst samfara stóraukinni framleiðslu á eldisafurðum. Það sem af er ári hefur hlutdeild þeirra verið um 86%. Október hefur þó oft og tíðum verið nokkuð stór mánuður í útflutningi á landbúnaðarafurðum, en talsvert er flutt út af sauðfjárafurðum á síðasta fjórðungi ársins. Verði útflutningur landbúnaðarafurða á svipuðu róli í október og á síðustu árum má ætla að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi verið í kringum 3 milljarða króna í mánuðinum. Október í fyrra var þó mjög stór mánuður hvað eldið varðar og í raun sá annar stærsti frá upphafi, á eftir september síðastliðnum sem var metmánuður og fjallað var um á Radarnum. Útflutningsverðmæti eldisafurða í október í fyrra nam tæplega 3,6 milljörðum króna ef miðað er við gengi í október í ár. Má því ætla að það verði samdráttur á milli ára í útflutningsverðmætum eldisafurða í október. Engu að síður er útlit fyrir að mikið hafi verið framleitt og flutt út af eldisafurðum í október í ár.  

 

Deila frétt á facebook