Eldisafurðir: Líkur á verulegum samdrætti í nóvember
4. desember, 2020
Útflutningsverðmæti eldis- og landbúnaðarafurða nam samanlagt 3,1 milljarði króna í nóvember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti sem birtar voru í morgun. Það er samdráttur upp á tæp 25% í krónum talið miðað við útflutningsverðmæti afurðanna í nóvember í fyrra. Gengi krónunnar er tæplega 14% veikara nú í nóvember en í sama mánuði í fyrra og er samdrátturinn því ívið meiri í erlendri mynt, eða um 35%.
Þar sem um er að ræða fyrstu bráðabirgðatölur um vöruskipti í nóvember, liggur ekki fyrir sundurliðun á útflutningsverðmætum eldis- og landbúnaðarafurða, einungis samanlagt verðmæti þeirra. Nóvember hefur oftast verið stærsti mánuður ársins í útflutningi á landbúnaðarafurðum, en í nóvember í fyrra hljóðaði verðmæti þeirra upp á tæpa 1,4 milljarð króna miðað við gengi krónunnar nú í nóvember. Verði útflutningur landbúnaðarafurða á svipuðum róli nú, eru horfur á að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi verið í kringum 1,8 milljarðar króna samanborið við 3,3 milljarða króna í nóvember í fyrra, mælt á sama gengi. Eru því horfur á að talsverður samdráttur hafi verið á milli ára í útflutningsverðmætum eldisafurða nú í nóvember.
Styður við gengi krónunnar
Aukin umsvif í fiskeldi undanfarin misseri hafa verið afar jákvæð fyrir þjóðarbúið, en eins og fjallað hefur verið um á Radarnum er greinin ein fárra útflutningsgreina sem er í vexti um þessar mundir. Vissulega hefur greinin ekki farið varhluta af ástandinu sem skapast hefur vegna COVID-19 og eru áhrifin hvað sýnilegust á afurðaverð sem hefur lækkað töluvert. Engu að síður hefur aukin framleiðsla leitt til þess að útflutningstekjur fiskeldis hafa haldið velli miðað við síðasta ár á sama tíma og útflutningstekjur annarra atvinnugreina hafa dregist verulega saman.
Fiskeldi er vissulega enn sem komið er smátt í sniðum miðað við stóru útflutningsgreinarnar, en engu að síður hefur uppgangurinn þar mildað höggið sem orðið hefur á gjaldeyrisflæði vegna annarra útflutningsgreina. Vissulega ber hér að horfa á hreint framlag greinarinnar til útflutningstekna, þ.e. útflutningstekjur að frádregnum kostnaði vegna innfluttra aðfanga sem þarf við framleiðslu þeirra. Þetta framlag má meðal annars sjá í vinnsluvirði atvinnugreina, sem er virðisaukinn sem eftir stendur þegar tekið hefur verið tillit til aðfanganotkunar. Þær tölur eru þó einungis birtar fyrir árið í heild, en ættu engu að síður að sýna að aukin umsvif í fiskeldi styrkja gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins og styðja þar með við gengi krónunnar, eins og sjá má í nýlegri grein í Morgunblaðinu.