Fiskeldi: Útflutningsverðmæti 2,6 milljarðar í október

26. nóvember, 2020

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rétt rúmlega 2,6 milljörðum króna í október. Það er aðeins undir væntingum sem fjallað var um á Radarnum fyrr í mánuðinum. Miðað við október í fyrra er um talsverðan samdrátt að ræða á alla mælikvarða. Hér ber þó að halda til haga að október í fyrra var næststærsti mánuður frá upphafi í útflutningi á eldisafurðum. Eðlilega geta miklar sveiflur verið á milli mánaða og er samdrátturinn  nú í október ekki vísbending um að eitthvað bakslag hafi orðið í þeirri jákvæðu þróun sem verið hefur á framleiðslu og útflutningi á eldisafurðum undanfarin misseri. Útflutningsverðmæti eldisafurða í október var jafnframt nokkuð meira en það hefur að jafnaði verið í mánuði hverjum það sem af er ári.


Í krónum talið var útflutningsverðmæti eldisafurða í október tæplega 16% minna en í sama mánuði í fyrra. Vegna lækkunar á gengi krónunnar er samdrátturinn ívið meiri mældur í erlendri mynt, eða rúm 27%. Útflutningsverðmæti eldislax nam 2,0 milljörðum króna í október, sem er um 30% minna en flutt var út í sama mánuði í fyrra á föstu gengi. Útflutningsverðmæti silungs, sem er að langmestu leyti bleikja, nam tæplega 0,6 milljörðum króna og dróst saman um 20% á sama kvarða. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.

Útflutningur aldrei verið meiri
Útflutningsverðmæti eldisafurða er komið í 23,1 milljarð króna á fyrstu tíu mánuðum ársins. Það er um 16% aukning í krónum talið en um 5% aukning í erlendri mynt. Þar af hefur útflutningsverðmæti eldislax aukist um rúm 6% á föstu gengi og silungs um tæp 9%. Aukninguna má að öllu leyti rekja til aukinnar framleiðslu, en fiskeldi er ein fárra útflutningsgreina sem er í vexti um þessar mundir. Að magni til hefur framleiðsla á eldisafurðum til útflutnings aukist um tæp 11%. Á móti vegur ríflega 5% lækkun á afurðaverði í erlendri mynt, sem er bein afleiðing af COVID-19.

Auka verðmætasköpun heima fyrir
Óhætt er að segja að aukin umsvif og framleiðsla í fiskeldi eru afar jákvæð tíðindi fyrir þjóðarbúið. Þessi þróun er sérstaklega jákvæð í því erfiða árferði sem nú ríkir þar sem uppsagnir eru daglegt brauð og atvinnuleysi fer vaxandi. Því er afar jákvætt þegar fréttir berast af fjölgun starfa, eins og þeirri sem var í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þar var greint frá því að sjávarútvegsfyrirtækið Oddi hf. á Patreksfirði hefði hafið vinnslu á laxi sem framleiddur er í nærumhverfi félagsins á Vestfjörðum af Arnarlaxi og Arctic fish. Hingað til hafa eldisfyrirtækin selt laxinn að langmestu leyti óunnin úr landi. Aukin verðmætasköpun heima fyrir leiðir ekki einungis til meiri gjaldeyristekna, heldur fjölgar þetta einnig störfum. Áætlað er að 16 til 18 ný bein heilsársstörf verði til vegna þessa. Við bætist að Oddi fjárfesti í íslenskum hátæknibúnaði frá Marel til þess að þetta gæti orðið að veruleika, enda er ekki unnt að nýta sömu fiskvinnsluvélar og fyrir botnfisk. Er því ljóst að þessi mikla uppbygging á eldisfyrirtækjum hefur margfeldisáhrif víða í samfélaginu!

 

Deila frétt á facebook