Fiskeldi: Árið byrjar með látum

8. febrúar, 2022

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam um 5,9 milljörðum króna í janúar og hefur það aldrei verið meira í einum mánuði. Miðað við janúar í fyrra er aukningin um 88% í krónum talið. Á föstu gengi er aukningin nokkuð meiri, eða um 96%, þar sem gengi krónunnar var rúmlega 4% sterkara nú í janúar en í sama mánuði í fyrra. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í janúar sem Hagstofan birti í gærmorgun. Ekki eru ekki birtar tölur fyrir hverja tegund, en þær verða birtar í lok þessa mánaðar.

Líkt og fjallað var um í fréttabréfi á Radarnum í gær, jókst heildarverðmæti vöruútflutnings verulega á milli ára í janúar, eða sem nemur um 62% á föstu gengi. Þetta er óvenjumikil aukning á milli ára og í raun ein sú mesta sem verið hefur á 12 mánaða tímabili frá því að áhrif aukinna umsvifa í stóriðju voru hvað mest á árunum 2007 og 2008. Hlutur stóriðju í auknu útflutningsverðmæti er vissulega stór nú í janúar. Hann má eflaust rekja til verðhækkana sem orðið hafa á heimsmarkaðsverði á áli, en ekki aukinnar framleiðslu, líkt og að undanförnu.


Vægi eldis aldrei meira
Aukning í fiskeldi var talsvert umfram aðra liði vöruútflutnings og því jókst hlutdeild eldisafurða í verðmæti vöruútflutnings á milli ára úr 6,4% í 7,7%. Vægi þeirra í vöruútflutningi frá Íslandi hefur aldrei verið meira. Verðmæti eldisafurða var jafnframt hátt í fjórðungur af verðmæti sjávarafurða í mánuðinum, en það hlutfall hefur aldrei verið svo hátt. Sennilega má rekja hluta skýringarinnar til þess að slátra varð upp úr kvíum á Austurlandi, fyrr en ráð var fyrir gert. Engu að síður er viðbúið að tekjur af eldi muni aukast enn frekar á þessu ári. Fiskeldi hefur burði til að vaxa að magni til á skömmum tíma, ólíkt veiðum á villtum fiski, sem byggjast á sjálfbærri nýtingu á fiskistofnum. Fólksfjölgun í heiminum ýtir undir aukna spurn eftir prótíni sem erfitt verður að mæta með hefðbundnum veiðum. Því felast mikil tækifæri í fiskeldi, enda verður spurn eftir fiski ávallt til staðar, hvernig sem vindar blása í heimsbúskapnum. Það eykur á fjölbreytni í útflutningi og styrkir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

 

Deila frétt á facebook