Fiskeldi: Veruleg aukning í maí

10. júní, 2024

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 3,2 milljörðum króna í maí. Það er um 80% aukning frá sama mánuði í fyrra á föstu gengi. Þar með er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 22 milljarða króna á fyrstu 5 mánuðum ársins og hafa aldrei verið meiri. Miðað við sama tímabil í fyrra er um 18% aukningu að ræða á föstu gengi. Verðmæti eldisafurða er rúmlega 15% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu 5 mánuðum ársins og um 6% af verðmæti vöruútflutnings alls, en þau hlutföll hafa heldur aldrei verið hærri á tilgreindu tímabili. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti sem birtar voru í síðustu viku.


Vægi laxeldis eykst

Í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar er útflutningsverðmæti eldisafurða í heild einungis birt og því liggur ekki fyrir sundurliðun verðmæta niður á einstaka tegundir í maímánuði. Vafalaust má rekja þessa myndarlegu aukningu í maí til laxeldis, líkt og mánuðina á undan. Þannig var útflutningsverðmæti eldislax komið í tæpa 17 milljarða króna á fyrstu 4 mánuðum ársins, sem er um 20% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Hlutdeild lax af útflutningsverðmæti eldisafurða í heild var rúm 87% á fyrstu 4 mánuðunum samanborið við rúm 81% á sama tímabili í fyrra.

Á hinn bóginn var hátt í þriðjungs samdráttur í útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, á sama tímabili. Þannig nam útflutningsverðmæti silungs tæplega 1,5 milljarði króna á fyrstu 4 mánuðum ársins samanborið við 2,1 milljarð á sama tíma í fyrra. Svipaða sögu er að segja um frjóvguð hrogn, sem er verðmæt hátækniframleiðsla. Útflutningsverðmæti þeirra var komið í tæpar 400 milljónir króna á fyrstu 4 mánuðum ársins, sem er 43% samdráttur á milli ára. Á móti hafa útflutningstekjur af Senegal flúru, sem er einn verðmætasti matfiskur í heimi, aldrei verið meiri á fyrstu 4 mánuðunum og nú í ár. Þannig var útflutningsverðmæti Senegal flúru komið í rúmar 500 milljónir á tilgreindu tímabili, sem er 150% aukning á milli ára á föstu gengi.


Grundvallarforsenda bættra lífskjara

Fiskeldi er ein þeirra útflutningsgreina sem hafa verið í töluverðum vexti undanfarin ár. Sá vöxtur kemur vitaskuld ekki af sjálfu sér, enda liggur mikil vinna og fjármagn að baki við skipulag og framkvæmdir af hálfu fyrirtækjanna.  Um þetta var fjallað á Radarnum nýverið.

Til eru þeir sem virðast draga í efa að fiskeldi skilji nokkuð eftir sig hér á landi eða hafi raunverulega efnahagslega þýðingu fyrir land og þjóð. Þetta má aðallega heyra frá þeim sem telja erlent eignarhald neikvætt en nokkur eldisfyrirtækja hér á landi eru í meirihlutaeigu erlendra aðila. Undir það er ekki hægt að taka því erlend fjárfesting á mikilvægan þátt í því að dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri atvinnuuppbyggingu í fiskeldi. Með hinni erlendu fjárfestingu hefur jafnframt komið mikilvæg reynsla og þekking á uppbyggingu í greininni.

Þó stöku efasemdaraddir um áhrif fiskeldis í efnahagslegu samhengi heyrast enn eru flestir orðnir meðvitaðir um jákvæð áhrif þess á íslenskt efnahagslíf. Nú þegar er fiskeldi orðið veigamikill liður í útflutningi Íslendinga og mun vafalaust verða enn fyrirferðarmeira þegar fram líða stundir. Fiskeldi hefur burði til að vaxa að magni til á skömmum tíma, ólíkt veiðum á villtum fiski sem byggja á sjálfbærri nýtingu á takmörkuðum fiskistofnum. Fólksfjölgun í heiminum ýtir undir eftirspurn eftir próteini sem ómögulegt er að mæta með hefðbundnum veiðum á villtum fiski. Því felast veruleg tækifæri í fiskeldi fyrir Íslendinga. Það eykur fjölbreytni í útflutningi og styrkir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélög víða um land. Ekki má heldur gleyma þeirri staðreynd að varanlegur vöxtur útflutningstekna er grundvallarforsenda sjálfbærs hagvaxtar og bættra lífskjara hér á landi.

 

Deila frétt á facebook