Góður gangur í júní

22. júlí, 2022

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam rétt rúmlega 29 milljörðum króna í júní samkvæmt fyrstu bráðabirgðartölum Hagstofunnar. Það er um 8% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra en tæp 12% í erlendri mynt vegna hækkunar á gengi krónunnar.

Þar sem þetta eru fyrstu bráðabirgðatölur er verðmæti einstakra fisktegunda ekki birt, heldur einungis einstakra vinnsluflokka. Aukninguna má þó líklega að stærstum hluta rekja til loðnu enda varð talsverð aukning á útflutningsverðmæti í þeim vinnsluflokkum þar sem hún er fyrirferðarmikil. Á myndinni eru loðnuhrogn í flokknum „aðrar sjávarafurðir“ og þar er hátt í 70% aukning á föstu gengi á milli ára. Það má rekja til þess að hrognin eru aðeins seinna á ferðinni í útflutningstölum Hagstofunnar í ár en í fyrra, eins og fjallað hefur verið um á Radarnum. Í fyrra skiluðu þau sér að stórum hluta í apríl og maí, en núna virðist þunginn vera í maí og júní. Útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ er einmitt svipað á fyrri helmingi ársins og í fyrra, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Jafnframt er áfram mikil aukning í útflutningi á fiskimjöli og lýsi í júní. Verðmæti þess samanlagt á fyrri árshelmingi er þrefalt meira á föstu gengi en á sama tíma í fyrra. Það má rekja til þess að loðnukvótinn í ár var margfalt stærri en í fyrra og því fór hlutfallslega meira af kvótanum í bræðslu.


Um fimmtungs aukning
Á fyrstu 6 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 170 milljarða króna. Það er um 18% aukning frá sama tímabili í fyrra, mælt í erlendri mynt. Heilt yfir er því ágætis gangur í sjávarútvegi en af þeim vinnsluflokkum sem birtir eru í bráðabirgðatölunum er eingöngu samdráttur í heilfrystum fiski.  Hækkun á afurðaverði kemur  hér vissulega við sögu, sem er í takti við aðrar verðhækkanir í flestum geirum. Þar með talið á flestum kostnaðarliðum sjávarútvegsfyrirtækja við framleiðslu og útflutning. Þótt verð á sjávarafurðum hafi heilt yfir almennt hækkað, er þróunin mjög mismunandi milli tegunda og flokka, en hátt í sjö hundruð tollskrárnúmer fyrir sjávarafurðir finnast í bókum Hagstofunnar um útflutning.    


Útflutningur til Noregs sjaldan meiri
Það er fátítt að eitt ár endurspegli annað í íslenskum sjávarútvegi hvort sem litið er til tegunda, afurðavinnslu eða viðskipti við einstök lönd. Á myndinni hér fyrir neðan sést útflutningsverðmæti sjávarafurða eftir tegundum á fyrstu 5 mánuðunum í ár og í fyrra til 10 stærstu viðskiptalandanna í ár. Þar blasir við að langmesta aukningin er í útflutningi á sjávarafurðum til Noregs. Það má rekja til loðnukvótans í ár og hversu stór hluti hans fór í bræðslu. Þessi aukning á útflutningi til Noregs ætti að koma fáum á óvart, enda hefur Noregur verið langstærsta viðskiptaland Íslendinga fyrir mjöl og lýsi í gegnum tíðina. Mjöl og lýsi sem fer til Noregs endar í fiskeldisfóðri, enda eru Norðmenn stórtækir í fiskeldi. Samkvæmt mánaðartölum Hagstofunnar, sem ná aftur til ársins 2002, hefur útflutningur til Noregs aldrei verið eins mikill á fyrstu 5 mánuðum ársins. Hvort sem litið er til verðmætis eða magns.

Á myndinni sést jafnframt hversu ólík löndin eru þegar litið er á samsetningu útflutningsverðmætis sjávarafurða eftir tegundum. Hið sama gildir ef samsetningin væri eftir vinnsluflokkum en vinnsla á sjávarafurðum er afar fjölbreytt, jafnvel innan sömu fisktegundar. Sveigjanleiki íslenskra fyrirtækja leiðir til þess að þau geta unnið afurðir á fjölbreyttan hátt og mætt þörfum viðskiptavina í fleiri löndum. Sjávarútvegur er ein meginstoða efnahagslegrar hagsældar á Íslandi og aðlögunarhæfni hans styrkir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Sjá nánar um þetta á mælaborði Radarsins. Þar hafa tölur og umfjöllun um útflutning á sjávarafurðum verið uppfærðar til ársins 2021. Þar er farið yfir þróunina í útflutningi á botn- og flatfiski þar sem þorskurinn er sérstaklega tekinn fyrir og svo uppsjávarfiski þar sem einnig er sérstök umfjöllun um loðnu. Eins er umfjöllun um helstu viðskiptalönd og þróunina þar undanfarinn áratug. Að lokum má nefna uppfærðar tölur um hlut sjávarútvegs í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins.

 

 

Deila frétt á facebook