Íslendingar flytja næstmest af sjávarfangi til Úkraínu

4. mars, 2022

Úkraína flytur inn um 80% af sjávar- og eldisafurðum sem eru á markaði þar í landi. Íbúarnir eru rúmlega 44 milljónir og er markaðurinn þar því afar mikilvægur fyrir marga fiskútflytjendur víða um heim, þar með talið íslenska. Miðað við verðmæti er Ísland í raun næst stærsti útflytjandi á fiskafurðum til Úkraínu. Hefur hlutdeild Íslands í heildarverðmætum innfluttra fiskafurða í Úkraínu að jafnaði verið um 14% á undanförnum árum. Norðmenn eru stærstir og hefur hlutdeild þeirra verið rúm 30% á  undanförnum árum. Bandaríkin eru svo númer þrjú í röðinni með í kringum 10% hlutdeild.  


Viðskiptin meiri en virðist í fyrstu
Frá því að Rússland lokaði á viðskipti með sjávarafurðir frá Íslandi árið 2015 hefur Úkraína verið eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslendinga með uppsjávarafurðir. Þangað er mikið flutt af síld, makríl og loðnu. Eins og fjallað var um á Radarnum í vikunni þá er ekki nóg að líta einungis á beinan útflutning til Úkraínu til þess að fanga viðskipti landsins með íslenskar sjávarafurðir. Til dæmis endar stærsti hluti af þeim sjávarafurðum sem fluttar eru til Litháens í Úkraínu. Af myndinni hér fyrir neðan sést að það munar talsvert um þann útflutning. Þar má jafnframt sjá að útflutningur á eldisafurðum til Úkraínu hefur aukist töluvert á undanförnum árum og nam um 2,2 milljörðum króna í fyrra. Út frá þessum tölum má því áætla að útflutningur á sjávar- og eldisafurðum frá Íslandi til Úkraínu hafi að jafnaði verið á bilinu 9-11 milljarðar króna á ári hverju, undanfarin ár. Það kemur jafnframt heim og saman við tölur um innflutning í Úkraínu.


Hvað nú?
Í ljósi hörmulegra atburða liðinna daga getur vel komið til þess að leita þurfi nýrra markaða fyrir afurðir sem hingað til hafa endað í Úkraínu. Þá er ekki loku fyrir það skotið að áhrifin kunni að verða enn víðtækari. Áhrifanna gætir raunar þegar með sölu til Hvíta-Rússlands og ekki er loku fyrir það skotið að þau gætu náð til viðskipta með sjávar- og eldisafurðir til Litháens, Póllands og annarra nálægra landa. Það er því ágætt að glöggva sig aðeins á umfangi viðskipta þessara landa með íslenskar sjávar- og eldisafurðir á liðnum árum, en þau eru umtalsverð. Á undanförnum tveimur árum hefur verðmæti útfluttra sjávar- og eldisafurða til þessara landa verið í ríflega 27 milljarðar króna. Það er um 8-9% af heildarverðmæti útfluttra sjávar-og eldisafurða frá Íslandi. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þessi viðskipti og vægi á ári hverju frá 2012 til 2021. Þar blasa jafnframt við áhrifin af viðskiptabanni Rússa, sem áður var ein stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með sjávarafurðir. Eins og mörgum er í fersku minni, hvarf einn mikilvægasti markaður Íslendinga fyrir uppsjávarfisk á einu augabragði vegna viðskiptaþvingana. Því varð að leita að nýjum mörkuðum fyrir afurðirnar. Það tókst að mestu á endanum, þó verð væru hvergi nærri þeim verðum sem fengust við sölu fyrir lokun Rússlands, en nú er hluti þessara markaða í uppnámi.   


Uppsjávarafurðir vega þyngst
Margir líta á sjávarafurðir sem einsleitan útflutning. Það er þó fjarri lagi, enda er þar að finna fjöldann allan af ólíkum fisktegundum og afurðarflokkum sem fara á ólíka markaði víðsvegar um heim. Undanfarinn áratug hafa uppsjávarafurðir vegið að jafnaði um 80% af viðskiptum þessara landa með sjávarafurðir. Þetta eru aðallega frosnar uppsjávarafurðir; síld, makríll og loðna. Viðskipti þessara þjóða vega jafnframt þungt í heildarverðmætum útfluttra uppsjávarafurða. Að jafnaði hefur um 30% af uppsjávarafurðum verið flutt til þessara landa frá árinu 2015, sem er þó ívið minna en árin þar á undan þegar Rússlandsmarkaður var opinn. Sé fiskimjöl og lýsi undanskilið í útflutningsverðmætum uppsjávarafurða hefur hlutfallið verið langtum hærra, eða um að jafnaði um 46% frá árinu 2015.


Talsverð viðskipti með eldisafurðir
Á undanförnum árum hefur útflutningur á eldisafurðum aukist talsvert til Úkraínu, eins og áður er getið. Eins er mikill útflutningur á eldisafurðum til Póllands. Útflutningur á eldisafurðum til Litháens, Hvíta Rússlands eða annarra nálægra landa er afar lítill. Á myndinni má sjá að vægi Póllands og Úkraínu í heildarverðmætum útfluttra eldisafurða var tæp 22% á árinu 2020 og tæp 17% í fyrra.


Aðrar sjávarafurðir vega minna
Útflutningur til þessara landa á öðrum sjávarafurðum en uppsjávarfiski, sem er þá aðallega botnfiskur, hefur verið um 4 til 5 milljarðar króna á undanförnum árum. Það er ekki stórt á heildina litið, eða rétt rúmlega 2% að jafnaði af heildarútflutningsverðmæti þessara afurða frá Íslandi. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan, var vægi þessara landa talsvert meira þegar Rússlandsmarkaður var opinn. Rússar voru önnur stærsta viðskiptaþjóð með karfa fyrir viðskiptabann. Karfi, einn og sér, nam um 80% af útflutningsverðmæti annarra sjávarafurða en uppsjávarfisks til Rússlands fyrir bannið.


Skyggni lítið
Óvissa er um áhrif stríðs í Úkraínu á sölu sjávarafurða, til bæði skemmri og lengri tíma. Þetta á reyndar ekki bara við um viðskipti með sjávarafurðir, alþjóðaviðskipti eru í uppnámi. Hræðileg áhrif á líf fólks á þeim svæðum sem í hlut eiga, eru hins vegar engum vafa undirorpin – þau eru sláandi og áþreifanleg. Frelsi til viðskipta á allt undir því að friður ríki í heiminum og að alþjóðalög og mannréttindi séu virt. Viðskiptalegir hagsmunir verða hjóm eitt þegar stríð geisar. Þar liggur afstaða íslensks sjávarútvegs.

Íslenskur sjávarútvegur og einstök fyrirtæki innan hans munu fást við þær áskoranir sem þessar aðstæður leiða af sér af festu og ábyrgð. Fyrirtækin munu nú, sem fyrr, stíga ölduna og kappkosta við að tryggja áfram verðmæti og störf.

 

 

Deila frétt á facebook