Laxinn í öðru sæti, annað árið í röð

30. nóvember, 2021

Útflutningsverðmæti eldislax er komið í rúma 23,3 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins. Það er 49% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra. Í erlendri mynt er aukningin aðeins meiri, eða rúm 52%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði rúmlega 2% sterkara í ár en á sama tímabili í fyrra. Inn í þessum tölum er útflutningsverðmæti frjóvgaðra laxahrogna ekki meðtalið, heldur einungis hefðbundin framleiðsla. Útflutningsverðmæti frjóvgaðra hrogna nemur um 2,1 milljarði króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er um fjórðungi meira á föstu gengi en á sama tímabili í fyrra. Hefur eldislax, án frjóvgaðra hrogna, skilað næstmestum útflutningsverðmætum í ár af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi, og bendir allt til þess að þetta verði annað árið í röð sem hann vermir það sæti. Vandséð er annað en að hlutur laxins muni vaxa enn frekar á komandi árum og að hann muni festa sig rækilega í sessi sem annar verðmætasti fiskurinn, á eftir þorskinum. Að sjálfsögðu geta aðrar fisktegundir bætt við sig, eins og loðnan sem mun eflaust toppa laxinn á næsta ári. En, þegar veitt er úr náttúrulegum stofnum er magnaukning þeirra eðlilega miklu óvissari.
 


Nú þegar búið að toppa metárið 2020
Líkt og fjallað var um í byrjun mánaðarins í fréttabréfi á Radarnum, þá er útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu 10 mánuðum þessa árs nú þegar orðið meira en það var á öllu árinu í fyrra, sem var metár. Á fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 30,5 milljarða króna, sem er um 35% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig útflutningsverðmæti eldisafurða skiptist niður eftir tegundum, en Hagstofan birti einmitt ítarlegra sundurliðun í morgun á vöruskiptum fyrir fyrstu 10 mánuði ársins. Sjá má að talsverður samdráttur er í útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja. Útflutningsverðmæti silungs er komið í 4,1 milljarð króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er rúmlega 14% samdráttur frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi.
 


Mikil aukning til Norður Ameríku
Í gegnum tíðina hafa Bandaríkin verið helsta viðskiptaland Íslendinga með eldisafurðir og eru góðar líkur á að svo verði einnig í ár. Þetta má sjá á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir 10 stærstu viðskiptalönd Íslendinga með eldisafurðir í ár og hvernig þróunin hefur verið undanfarin þrjú ár. Til Bandaríkjanna hafa verið fluttar út eldisafurðir fyrir rúma 5,2 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins og hefur það aldrei verið meira. Það er rífleg tvöföldun á milli ára. Eins er veruleg aukning á útflutningi á eldisafurðum til Kanada, eða rífleg fjórföldun á milli ára. Nemur verðmæti útfluttra eldisafurða til Kanada 1,6 milljarði króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem einnig er met. Eins og sjá má á myndinni þá eru Holland og Danmörk mjög fyrirferðamikil í þessum tölum, og verma annað og þriðja sætið á listanum yfir helstu viðskiptalöndin. Þar er þó algengt að vörum sem þangað koma sé umskipað og þær fluttar annað, og því erfitt að segja til um hvert endanlegt viðskiptaland er með því að horfa einungis á útflutningstölurnar.
 

 

Deila frétt á facebook