Metár í fiskeldi

2. febrúar, 2021

Þrátt fyrir að fiskeldi hafi ekki farið varhluta af því ástandi sem uppi var í heimsbúskapnum í fyrra, náði atvinnugreinin að framleiða meira og afla meiri gjaldeyristekna en hún hefur nokkurn tímann áður gert. Var fiskeldi ein fárra útflutningsgreina sem var í vexti á árinu 2020 og hefur vægi greinarinnar í útflutningstekjum þjóðarbúsins aldrei verið meira. Útflutningsverðmæti eldisafurða var um 11% af útflutningsverðmætum sjávarafurða á árinu og tæp 5% sé tekið mið af verðmæti vöruútflutnings í heild. Er ljóst að hér er orðinn til öflugur grunnatvinnuvegur, þó fiskeldi eigi sér vissulega lengri sögu en aðeins nokkur ár aftur í tímann.
 


Meiri verðmæti í desember en áætlað var
Útflutningsverðmæti eldisafurða reyndust rétt tæpir 4,0 milljarðar króna í desember, sem er aðeins umfram væntingar og fjallað var um á Radarnum í byrjun árs. Þetta er stærsti mánuður frá upphafi og var útflutningsverðmæti eldisafurða á árinu 2020 í heild þar með 29,3 milljarðar króna. Útflutningur á eldisafurðum hefur aldrei verið meiri, sama á hvaða mælikvarða er litið, það er í krónum talið, erlendri mynt eða tonnum. Í krónum talið jókst útflutningsverðmæti eldisafurða um rúm 17% á milli ára en vegna lækkunar á gengi krónunnar var aukningin í erlendri mynt ívið minni, eða tæp 6%. Áhrifin af COVID-19 voru hvað sýnilegust á afurðaverð sem var rúmlega 5% lægra að jafnaði í erlendri mynt á árinu 2020 en árið 2019. Aukin framleiðsla náði því að vega upp lægra verð. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofan birti á föstudag.
 


Aukin framleiðsla drifkraftur
Nú hafa útflutningstölur eldisafurða verið uppfærðar á Radarnum. Þar má sjá þróunina frá árinu 2010 á útfluttum verðmætum og magni eftir helstu tegundum og helstu viðskiptalönd. Þar að auki voru tölur um framleiðslu á eldisfiski uppfærðar. Þar má sjá að á árinu 2020 var slátrað alls um 40,6 þúsund tonnum af eldisfiski, sem er framleiðslumet. Jókst framleiðslan um 20% frá árinu 2019, en þá aukningu má að langmestu leyti rekja til laxeldis í sjó. Miðað við áætlanir fiskeldisfyrirtækja eru horfur á enn frekari aukningu í framleiðslu á eldisfiski í ár og á næstu árum sem leiðir til aukinna gjaldeyristekna frá fiskeldi, að öðru óbreyttu.

Áhrif fiskeldis afar jákvæð, sér í lagi á nærumhverfið
Óhætt er að segja að aukin umsvif og framleiðsla í fiskeldi á undanförnum árum hafi haft afar jákvæð áhrif á þjóðarbúið. Áhrif þess verða sérlega áberandi þegar í bakseglin slær hjá helstu útflutningsgreinum landsins, líkt og gerst hefur á síðustu tveimur árum. Rétt er að endingu að nefna nokkur mikilvæg atriði um fiskeldi og stöðu þess:   

  • Aukin umsvif í fiskeldi styrkja gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og þar með við gengi krónunnar, enda er hreint framlag greinarinnar til útflutningstekna jákvætt. Þetta framlag má meðal annars sjá í vinnsluvirði atvinnugreina, sem er virðisaukinn sem stendur eftir þegar tekið hefur verið tillit til aðfanganotkunar, eins og innfluttra aðfanga. Nánar um þetta má sjá í grein sem birt var á Radarnum á seinni hluta síðasta árs.
  • Fiskeldi er grunnatvinnuvegur, sem þýðir að það hefur meiri efnahagslega þýðingu en umfang þess, eitt og sér, gefur til kynna. Þannig eru aðrir atvinnuvegir háðir starfsemi fiskeldisfyrirtækja, en þau ekki háð starfsemi annarra atvinnuvega, að minnsta kosti ekki í eins miklum mæli. Áhrif greinarinnar eru afar mikil á ákveðnum landsvæðum, eins og Vestfjörðum og Austurlandi. Þar hefur atvinnulíf orðið fjölbreyttara, fólki fjölgað og aukið líf færst í fasteignamarkaðinn svo fátt eitt sé nefnt. Þetta má rekja beint til aukinna umsvifa starfseminnar sjálfrar og óbeint til afleiddra áhrifa sem eldið hefur á aðrar atvinnugreinar. Þessi áhrif eru augljós í Vesturbyggð og má meðal annars má sjá í erindi sem flutt var á Sjávarútvegsdeginum árið 2020.
  • Þrátt fyrir að ákveðin eldisfyrirtæki séu í meirihlutaeigu erlendra aðila, þá skilur greinin mikið eftir sig hér á landi. Það ætti að gefa auga leið miðað við það sem að framan greinir. Þar að auki getur erlend fjárfesting einnig átt þátt í að dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri atvinnuuppbyggingu sem er vissulega af hinu góða. Að íslensku fiskeldi koma jafnframt fagaðilar, sem hafa ekki einungis sett fjármagn í uppbygginu heldur einnig miðað af reynslu sinni og þekkingu til uppbyggingar greinarinnar.
Deila frétt á facebook