Myndarlegur júnímánuður

8. júlí, 2021

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 26,7 milljörðum króna í júní samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum sem birtar voru í gær. Það er um 18% aukning í krónum talið miðað við júní í fyrra. Gengi krónunnar var rétt rúmlega 4% sterkara í júní en í sama mánuði í fyrra og er aukningin þar með nokkuð meiri í erlendri mynt, eða tæp 23%. Á þann kvarða hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða ekki verið meira í að minnsta kosti áratug.

Aukning er í öllum undirflokkum á milli ára í júní, að flokknum lýsi undanskyldum sem flokkast með fiskimjöli á myndinni hér fyrir neðan. Mestu munar um aukningu á útflutningi á frystum heilum fiski (55% aukning á föstu gengi), svo á frystum flökum (+23%) og þar á eftir á flokknum „aðrar sjávarafafurðir (+56%). Hér má ætla að verðmæti frá síðustu loðnuvertíð séu enn að skila sér í útflutningstölur, þá heilfryst loðna í útflutningi á frystum heilum fiski og loðnuhrogn í „aðrar sjávarafurðir“. Nánar má lesa um loðnuna í frétt á Radarnum sem birt var fyrr í vikunni. Annars mun koma í ljós í lok þessa mánaðar hvernig útflutningsverðmæti einstakra fisktegunda skiptist í mánuðinum, en þá birtir Hagstofan nánari sundurliðun á þessum bráðabirgðatölum.

 

Ágætis gangur í sjávarútvegi
Sé tekið mið af fyrstu 6 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í tæpa 149 milljarða króna. Það hefur ekki verið meira á þessum hluta árs undangenginn áratug, hvort sem er í krónum eða erlendri mynt. Í krónum talið er aukningin um 16% frá sama tímabili í fyrra og á föstu gengi er aukningin tæp 15%. Mesta aukningin hefur orðið á útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“, sem hefur aldrei áður verið hærra á tímabilinu sem hér um ræðir. Það má rekja til loðnunnar, einkum frystra loðnuhrogna, en hún skýrir einnig þá miklu aukningu sem orðið hefur á útflutningsverðmæti á frystum heilum fiski.

Eins hefur útflutningsverðmæti ferskra afurða aukist nokkuð myndarlega á milli ára og er einnig um metútflutning að ræða í þeim efnum. Í heildina sést að það er ágætis gangur í sjávarútvegi. Það eru jákvæð tíðindi fyrir þjóðarbúið, enda er sjávarútvegur ein helsta grunnstoð íslensks efnahagslífs. Sjávarafurðir voru alls um 43% af verðmæti vöruútflutnings á fyrri árshelmingi, sem er aðeins meira en það hefur verið að jafnaði (41%) undanfarinn áratug. 
 

 

Deila frétt á facebook