Sjávarafurðir, dágóð aukning í febrúar

8. mars, 2022

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 23,3 milljörðum króna í febrúar samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í gærmorgun. Það er rétt rúmlega 8% aukning í krónum talið miðað við febrúar í fyrra. Aukningin er mun meiri í erlendri mynt, eða tæp 16%, þar sem gengi krónunnar var um 7% sterkara nú í febrúar en í sama mánuði í fyrra.

Loðnan leikur líklega lykilhlutverk
Aukninguna má að mestu rekja til fiskimjöls. Útflutningsverðmæti þess nam um 4,2 milljörðum króna, sem er um 184% aukning frá febrúar í fyrra á föstu gengi. Eins var veruleg aukning í útflutningi á lýsi, eða um 85% á milli ára, en útflutningsverðmæti þess nam tæpum 1,8 milljörðum króna. Útflutningsverðmæti eru ekki birt niður á tegundir í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar, en telja má víst að þessa aukningu megi að langstærstum hluta rekja til loðnu.   

Af öðrum afurðaflokkum má nefna að útflutningsverðmæti ferskra afurða nam rétt rúmum 6 milljörðum króna í febrúar og jókst um tæp 4% á milli ára. Þótt aukningin sé ekki ýkja mikil, hefur verðmæti þess afurðaflokks aldrei verið meira í febrúarmánuði en nú. Um þriðjungs samdráttur var svo á útflutningsverðmæti á frystum heilum fiski á föstu gengi. Nánar um tölurnar og aðra afurðaflokka má sjá á myndinni hér fyrir neðan.


Þriðjungs aukning frá áramótum
Útflutningsverðmæti sjávarafurða er komið í 47,8 milljarða króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Það er 24% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra en um 31% í erlendri mynt. Aukning hefur orðið í öllum afurðaflokkum að undanskildum frystum heilum fiski. Þar er rúmlega 6% samdráttur á milli ára. Aukning er mest í fiskimjöli (204%) og lýsi (125%). Eins er dágóð aukning í frystum flökum (26%), söltuðum og þurrkuðum afurðum (13%) og svo ferskum afurðum (11%). Talsverð aukning er á útflutningsverðmæti rækju (48%) en á myndinni flokkast hún með öðrum sjávarafurðum. Útflutningsverðmæti annarra sjávarafurða jókst svo um 14% á milli ára.


Stríðshörmungar, áskoranir fram undan
Af ofangreindum tölum má sjá að árið fór vel af stað í íslenskum sjávarútvegi. Skjótt skipast þó veður í lofti og hefur staðan gjörbreyst á örskömmum tíma vegna ástandsins í Úkraínu. Líkt og sjá má í nýlegri samantekt á Radarnum eiga íslensk sjávarútvegsfyrirtæki verulega hagsmuna að gæta í Úkraínu og löndunum í kring. Þar er að finna einn helsta markað fyrir uppsjávarfisk, sér í lagi frosnar afurðir; síld, loðnu og makríl. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að stærsti hluti útflutningstekna Íslendinga af viðskiptum við Úkraínu, Litháen og Hvíta Rússlands hefur verið vegna sjávarafurða. Fyrir viðskiptabann Rússa árið 2015 á matvæli var Rússland eitt stærsta viðskiptaland Íslendinga með sjávarafurðir. Það er því ljóst að sjávarútvegsfyrirtækin standa mörg hver frammi fyrir verulegum áskorunum vegna hörmunga í Úkraínu. Þar mun reyna á útsjónarsemi og sveigjanleika fyrirtækjanna. Finna þarf nýja markaði fyrir afurðirnar og/eða breyta vinnslu og ekki síður mun reyna á fjárhagslega burði þeirra til að mæta þessum áskorunum.

 

Deila frétt á facebook