Sjávarafurðir og eldi tæpur helmingur af vöruútflutningi landsins í fyrra

14. janúar, 2021

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 23,2 milljörðum króna í desember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum sem birtar voru í morgun. Er hér um afar myndarlegan desembermánuð að ræða og hefur verðmæti útfluttra sjávarafurða aðeins einu sinni áður verið meira í desember síðasta áratuginn. Miðað við desember 2019 er um að ræða 37% aukningu í krónum talið en um 24% aukningu mælt í erlendri mynt. Þar sem um fyrstu bráðabirgðatölur er að ræða er ekki hægt að sjá sundurliðun niður á einstaka tegundir eða vinnsluflokka, en tölur um það verða birtar í lok þessa mánaðar.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða 270 milljarðar
Miðað við ofangreindar tölur var útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2020 um 270 milljarðar króna. Það er um 4% aukning í krónum talið frá árinu 2019 en tæplega 7% samdráttur í erlendri mynt. Hefur því dregið nokkuð úr samdrættinum með nýjum tölum, en eins og kom fram í grein á Radarnum í gær mældist tæplega 9% samdráttur á milli ára í erlendri mynt á fyrstu 11 mánuðum ársins. Það má rekja til talsverðs samdráttar í útfluttu magni og til lækkunar á verði sjávarafurða mælt í erlendri mynt.

Fiskur fyrirferðamikill í útflutning
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar voru fluttar út vörur fyrir 620 milljarða króna á árinu 2020. Var því hlutdeild sjávarafurða í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins vegna vöruskipta tæp 44% ár árinu. Eins og fram kom í grein á Radarnum í dag má áætla að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi verið rúmir 29 milljarðar króna í fyrra, eða sem nemur tæp 5% af verðmæti vöruútflutnings. Þessar tölur benda til þess að útflutningur á fiskafurðum hafi verið afar fyrirferðamikill í útflutningstölum ársins 2020, eða sem nemur rúmlega 48% af verðmæti vöruútflutnings. Það minnir óneitanlega á vöruskipti áður en umsvif stóriðju voru aukin fyrir hrun, en þá var samsetningin vissulega önnur og eldið ekki nærri eins umsvifamikið og það er nú.

 

Deila frétt á facebook