Sjávarafurðir: Samdráttur í október

6. nóvember, 2020

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 26,7 milljörðum króna í október samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í gærmorgun. Þetta er tæplega 16% samdráttur í krónum talið miðað við október í fyrra, en rúmlega 27% samdráttur mælt í erlendri mynt. Gengi krónunnar var um 14% veikara í október en í sama mánuði í fyrra. Þar sem um fyrstu bráðabirgðatölur ræðir liggur aðeins fyrir hvert útflutningsverðmæti sjávarafurða var í heild í október en ekki útflutt magn eða sundurliðun á verðmætum einstakra tegunda eða afurðaflokka. Tölur þess efnis verða birtar 30. nóvember.

 

Það að samdráttur í útflutningsverðmæti sjávarafurða hafi verið svo mikill á milli ára í október skrifast að einhverju leyti á að útflutningur sjávarafurða í október í fyrra var óvenjumikill, bæði að verðmæti og magni. Eins og við fjölluðum um á Radarnum í vikunni, þá var jafnframt talsverð aukning í september síðastliðnum sem var jafnframt óvenjustór í þessu tilliti miðað við september fyrri ár. Kann hluti af skýringunni einnig að liggja þar. Engu að síður voru útflutningsverðmæti nú í október töluvert minni en í sama mánuði undanfarin ár, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. 

Verulegar verðlækkanir

Ofangreindur samdráttur í útflutningsverðmæti sjávarafurða í október kann einnig að eiga rætur í verðlækkunum. Þannig hefur verð á sjávarafafurðum lækkað verulega frá því COVID-19 skall á og hafa verðlækkanir heldur færst í aukana eftir því sem lengra hefur liðið á árið. Það má til að mynda sjá í þróun verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofan birtir mánaðarlega, en nýjustu tölur eru fyrir september. Var 12 mánaða taktur verðvísitölunnar kominn niður í 5,6% lækkun í september í erlendri mynt, það er breytingin á milli september í ár miðað við september í fyrra. Er það mesta lækkun frá því á miðju ári 2013. Þetta er verulegur viðsnúningur frá þeirri þróun sem átti sér stað fyrir COVID-19, en til að mynda var 12 mánaða taktur verðvísitölunnar í desember 9,3% hækkun.

 

Þess má geta að verulegar árstíðasveiflur eru í verði sjávarafurða, eins og er á mörgum öðrum afurðum. Því er réttara að bera saman verð á sama tímabili á milli ára þegar metið er hver þróunin er.  Nærtækt dæmi er að nefna afurðaverð á þorski, sem tekur oftast nær verulega dýfu í mars og helst lágt út maí, en er að öllu jöfnu hærra á seinni hluta árs. Það má rekja til þess að framboð af þorskafurðum er mjög mikið á þeim tíma, mest vegna þess að Norðmenn veiða langstærstan hluta þorskvótans í febrúar til apríl. Nánar má sjá umfjöllun um það í grein á heimasíðu Samtaka Fyrirtækja í Sjávarútvegi.

Önnur aðferð endurspeglar hið sama
Þróun verðvísitölu sjávarafurða (VS) rímar vel við þróun verðvísitölu útfluttra sjávarafurða (VÚS) sem Hagstofan tekur einnig saman og birtir ársfjórðungslega. Báðar þessar vísitölur mæla verðþróun á íslenskum sjávarafurðum, en með ólíkri aðferðafræði og mismunandi gögnum og geta því gefið aðeins mismunandi niðurstöðu. VÚS tekur til alls útflutnings og byggist á gögnum frá útflutningsskýrslum en VS byggist á úrtaki, það er upplýsingum frá hluta sjávarútvegsfyrirtækja. Báðar þessar vísitölur sýna að verulegur viðsnúningur hefur orðið á afurðaverði frá því COVID-19 skall á, sem sést á því hvernig afurðaverð tekur dýfu á milli fyrsta og annars ársfjórðungs.

Enginn afurðaflokkur undanskilinn
Framvindan er aðeins misjöfn eftir afurðaflokkum, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar má sjá hvernig verðið hefur breyst í erlendri mynt á hverjum ársfjórðung frá sama ársfjórðungi síðasta árs. Þar má sjá að í flestum tilvikum var verulegur viðsnúningur á afurðaverði á milli fyrsta og annars árfjórðungs, það er fer úr hækkun í lækkun. Í öllum tilvikum á sér stað verðlækkun á þriðja ársfjórðungi sem jafnframt hefur í flestum tilvikum færst í aukana frá öðrum ársfjórðungi. Má því telja mjög líklegt að verðlækkanir afurða hafi átt einhvern hlut í þeim samdrætti sem mældist á útflutningsverðmætum sjávarafurða í október, enda hefur faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir víða um heim heldur verið að færast í aukana en annað.

 

Deila frétt á facebook