Sjávarafurðir: Útflutningur í takti við bráðabirgðatölur

3. júlí, 2020

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var rúmir 23,7 milljarðar króna í maí, sem er í samræmi við bráðabirgðatölur Hagstofunnar sem greint var frá á Radarnum í byrjun júní. Þetta er tæplega 16% samdráttur í krónum talið miðað við útflutningsverðmæti sjávarafurða í maí í fyrra. Samdrátturinn er ívið meiri í erlendri mynt, eða rúm 25%, þar sem gengi krónunnar var um 12% veikara nú í maí en í sama mánuði í fyrra. Þetta má sjá í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í vikunni.

Uppsjávarfiskur óvenju fyrirferðamikill í fyrra
Líkt og fram kom í fréttabréfi í júní, þá var óvenjumikill útflutningur á uppsjávarafurðum í maí í fyrra miðað við árstíma, eins og sjá má á myndinni hér á undan. Er hér aðallega um útflutning á makríl að ræða, en hann er að mestu veiddur síðla sumars og fram á haust og kann því að vera að töf hafi verið á afhendingu gagna og hann færður til bókar með útflutningi í maí. Eins var verðmæti loðnubirgða mun meira í maí í fyrra en í ár, sem aftur má eflaust skýra með að töf á gögnum, enda hefur loðnubrestur verið tvö ár í röð. Sé útflutningsverðmæti uppsjávarafurða tekið út fyrir sviga, mælist samdrátturinn í útflutningsverðmæti sjávarafurða ívið minni á milli ára í maí, eða 4% í krónum talið en 15% í erlendri mynt.

Þessi framvinda sést einnig á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir útflutningsverðmæti afurða eftir vinnslu. Þar má sjá að útflutningur á frystum afurðum var verulegur í maí í fyrra. Myndin virðist einnig benda til þess að nokkur aukning hafi verið í útflutningsverðmæti ferskra afurða á milli ára í maí, sem er vitaskuld rétt sé tekið mið af verðmætum þeirra í krónum talið. Á þann kvarða var tæplega 4% aukning, en sú aukning skrifast á gengi krónunnar enda var rúmlega 8% samdráttur sé tekið mið af útflutningsverðmætum í erlendri mynt.

Verulegur samdráttur í útfluttu magni
Sé tekið mið af fyrstu fimm fyrstu mánuðum ársins hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða dregist saman um tæp 7% í krónum talið miðað við sama tímabil í fyrra. Þennan samdrátt má einkum rekja til tæplega 18% samdráttar í útfluttu magni. Það sem vegur upp á móti þessum mikla samdrætti í magni er hærra afurðaverð og 8% lækkun á gengi krónunnar, sem styður við afkomu greinarinnar í krónum talið.  Hvað afurðaverð varðar, þá fékkst að jafnaði tæplega 5% hærra verð fyrir útfluttar afurðir, mælt í erlendri mynt, á fyrstu fimm mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Þá hækkun má rekja til verðhækkana í upphafi árs, en viðsnúningur varð á afurðaverði í kjölfar COVID-19 með tilheyrandi lækkunum á mörkuðum, eins og áður hefur verið fjallað nokkuð um (sjá til dæmis hér). Þetta rímar ágætlega við nýlegar spár, eins og Seðlabankans og Hagstofu Íslands, sem gera ráð fyrir verulegum samdrætti í ár og í raun þeim mesta sem orðið hefur í útflutningi á sjávarafurðum frá því snemma á níunda áratug síðustu aldar. Verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála á næstu mánuðum og hvort að þær spár gangi eftir, en skjótt geta veður skipast í lofti. Næstu tölur um útflutning á sjávarafurðum eru væntanlegar á mánudaginn og eru það fyrstu tölur um gang mála í júní.

 

Deila frétt á facebook