Sjávarútvegur: Samdráttur augljós

17. ágúst, 2020

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 146 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra var það rúmlega 151 milljarður króna og er því um ríflega 3% samdrátt að ræða á milli ára í krónum talið. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti nýverið.

Sá mesti frá síðasta samdráttarskeiði
Þrátt fyrir talsverða lækkun á gengi krónunnar í ár, sem vissulega styður við afkomu greinarinnar í krónum talið, dragast útflutningstekjur sjávarútvegs saman á milli ára. Samdrátturinn er ívið meiri í erlendri mynt, eða sem nemur tæpum 11%. Á þann kvarða er um að ræða mesta samdrátt í útflutningstekjum sjávarútvegs á milli ára á þessu tiltekna tímabili frá árinu 2009, sem varð í kjölfar fjármálakreppunnar. Mikil lækkun á verði sjávarafurða var meginástæða samdráttarins á árinu 2009, en í ár er það útflutt magn. Þó varð nokkuð snarpur viðsnúningur á verði sjávarafurða á árinu, úr ágætis hækkun í lækkun á milli ára á skömmum tíma, líkt og nýlega var fjallað um í grein á Radarnum.

COVID-19 og loðnubrestur
Loðnubrestur og COVID-19 eru stærstu áhrifaþættirnir í ofangreindum samdrætti. Vissulega er þetta annað árið í röð sem loðnubrestur verður, og hefði því mátt ætla að áhrif hans væru engin í ár. Hins vegar var útflutningsverðmæti loðnuafurða tæpir 7 milljarðar króna á fyrstu sjö mánuðunum í fyrra, sem var birgðasala á framleiðslu fyrri ára. Sú sala verður augljóslega ekki endurtekin.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti sjávarafurða eftir vinnslu í hverjum mánuði á fyrstu sjö mánuðum áranna 2018 til 2020. Tölurnar hafa verið leiðréttar fyrir gengissveiflum krónunnar og er tekið mið af meðalgildi gengisvísitölu Seðlabankans á fyrstu sjö mánuðum ársins. Þar má sjá að verulegur samdráttur var í útflutningsverðmætum í janúar á milli ára, sem má einna helst rekja til slæms tíðarfars. Áhrif COVID-19 koma svo bersýnilega fram í tölum apríl og maí. Ástandið á mörkuðum batnaði svo í byrjun sumars þegar veiran virtist vera á undanhaldi og mörg ríki fóru að slaka á sóttvarnaraðgerðum og fyrirtæki opnuð á nýjan leik. Viðsnúningurinn var einna mest áberandi í útflutningi til tveggja stærstu viðskiptaþjóða Íslendinga með sjávarafurðir; Bretlands og Frakklands. Þetta má sjá í tölunum fyrir júní.

Sviptingar á milli mánaða
Ljóst er nú að sú bjartsýni sem gætti í byrjun sumars var skammgóður vermir enda fór útbreiðsla veirunnar víðast hvar að færast í aukana þegar á leið. Það kann að hafa sett strik í reikninginn fyrir útflutning á sjávarafurðum í júlí, því samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar varð verulegur samdráttur á milli ára í mánuðinum. Ekki liggur þó fyrir frekari sundurliðun á útflutningsverðmætum eftir afurðum, vinnslu eða löndum. Tölur um landaðan afla íslenskra fiskiskipa í mánuðinum geta þó gefið vísbendingu um hvað koma skal. Þar má sjá að heildarafli íslenskra fiskiskipa var 6% minni nú í júlí en á sama tíma í fyrra. Samsetning aflans er talsvert önnur, en þannig dróst botnfiskafli saman um 18% á milli ára á sama tíma og uppsjávarafli jókst um 4%. Var aflaverðmæti nú í júlí þar með talsvert lægra en í júlí í fyrra, eða um 14% á föstu verði samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Augljóst er að árið í ár hefur verið óútreiknanlegt, eða frá því að áhrifa COVID-19 fór að gæta. Það á jafnt við um markað með sjávarafurðir sem og aðra vöru. Hvert framhaldið verður er ómögulegt að spá fyrir um á þessari stundu, en sveigjanleiki íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja mun, hér eftir sem hingað til, hjálpa mjög til við að vinna bug á þeim áskorunum sem upp kunna að koma.

 

Deila frétt á facebook