Tækniframfarir kalla á fjárfestingu

9. mars, 2020

Fjárfesting í sjávarútvegi hefur verið mikil undanfarin 5 ár og í raun sú mesta frá því að lög um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 tóku gildi. Það á bæði við um fjárfestingu í fiskveiðum og fiskvinnslu. Kemur það heim og saman við hversu örar tækniframfarir hafa verið í greininni. Mikil og nauðsynleg endurnýjun hefur orðið á fiskiskipaflotanum, sem er kominn nokkuð til ára sinna. Auk þess hafa tækniframfarir í fiskvinnslu, með aukinni sjálfvirknivæðingu, verið örar sem hefur gert hana mun fjármagnsfrekari en áður. Þetta má greina í nýlega birtum tölum Hagstofunnar um fjármunamyndun í sjávarútvegi. Þar eru fyrstu bráðabirgðatölur ársins 2019 birtar og eldri tölur endurskoðaðar. Samkvæmt þeim hefur nettó fjárfesting í sjávarútvegi, það er fjárfesting að frádregnum seldum eignum, á síðustu 5 árum verið 132 milljarðar króna. Þar af var nettó fjárfesting í fiskveiðum um 72 milljarðar króna og í fiskvinnslu um 61 milljarður.

Sjávarútvegur er fjármagnsfrekur og reksturinn getur verið áhættusamur. Óvissa, sem er mikilvægur þáttur í ákvörðun um fjárfestingu, er jafnframt meiri en gerist og gengur í mörgum öðrum geirum atvinnulífsins. Ber hér helst að nefna sveiflur í stærð fiskistofna, sem er einn stærsti óvissuþáttur sem sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að glíma við umfram aðrar atvinnugreinar. Nærtækt dæmi er loðnubrestur, sem er mögulegur annað árið í röð. Annar áhættuþáttur sem má nefna, og er allt annars eðlis, er af stjórnmálalegum toga. Þar geta seglin hæglega snúist eftir því hvernig vindar blása. Hvað sem því líður er ljóst að tækniframfarir, sem hafa verið örar í greininni undanfarin ár, skapa þrýsting á auknar fjárfestingar. Þær eru nauðsynlegar til þess að tryggja samkeppnishæfni og stöðu íslensks sjávarútvegs á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði.

Tölur hafa verið uppfærðar sem og umfjöllun á Radarnum um fjármunamyndun í sjávarútvegi.
 

 

Deila frétt á facebook