Þorskur, árið 2022 í hnotskurn

2. febrúar, 2023

Þá er það staðfest að útflutningsverðmæti þorskafurða á árinu 2022 voru ein þau mestu í sögunni, líkt og við mátti búast og fjallað var um í fréttabréfi á Radarnum í vikunni. Alls voru fluttar út þorskafurðir fyrir rúman 141 milljarð króna samanborið við rúma 132 milljarða árið á undan, reiknað á gengi hvors árs. Það gerir um 7% aukningu í krónum talið á milli ára en 10% aukningu sé leiðrétt fyrir gengi krónunnar. Á sama tíma dróst útflutningur í tonnum talið saman um tæp 10%, fór úr rúmum 141 þúsund tonnum í tæp 128 þúsund tonn. Það kemur heim og saman við aflatölur, en samdráttur í þorskafla nam einnig 10% á tímabilinu. Verðmæti hvers kílós, hvort sem miðað er við afla eða útflutning, var því ríflega fimmtungi hærra í fyrra en árið 2021, mælt í erlendri mynt. Af þessu er ljóst að íslenskum sjávarútvegi tókst vel upp á árinu í framleiðslu og útflutningi á þorskafurðum.


Miklar verðhækkanir

Af ofangreindu er ljóst að sú mikla hækkun sem varð á fiskverði í fyrra gegndi stóru hlutverki í ofangreindri aukningu útflutningsverðmæta. Hækkunin kom þó vissulega ekki öll til af hinu góða, enda má rekja hana að hluta til innrásar Rússa í Úkraínu. Fyrir innrásina hafði fiskverð farið hækkandi í takti við batnandi aðstæður á mörkuðum og áhrifin af COVID-19 minnkuðu. Óvissa sem leiddi af stríðinu og viðskiptaþvinganir sem Vesturlöndin gripu til gegn Rússlandi, stuðluðu að frekari verðhækkunum. Þetta kemur ágætlega fram í verðvísitölu botnfiskafurða sem Hagstofan birtir mánaðarlega og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Hún endurspeglar ágætlega þróun á verði þorskafurða, enda vega þær um 65% af útflutningsverðmæti botnfiskafurða alls.

Verðþróunin var þó nokkuð misjöfn eftir einstaka afurðaflokkum þorskafurða enda eru viðskiptalöndin mörg og ólík þar sem ástand á mörkuðum er mismunandi. Verðvísitala sjófrystra afurða hækkaði áberandi mest, eða um 46% á milli ára á föstu gengi. Eins var dágóð hækkun á verðvísitölu fyrir ferskan þorsk (18%) og landfrystan (14%). Minnsta hækkunin var á verðvísitölu fyrir saltaðan þorsk, eða rúm 11% á föstu gengi. Verðvísitala botnfiskafurða í heild hækkaði um tæp 24% í erlendri mynt á milli ára. Hækkanirnar voru jákvæðar fyrir íslenskt hagkerfi. Einnig kom það sér vel að þær komu á sama tíma og samdráttur varð í þorskkvóta. Hátt verð á íslenskum sjávarafurðum hefur jákvæð áhrif á viðskiptakjör og ekki hefur veitt af að afla meiri útflutningstekna miðað við þann halla sem er nú um stundir á utanríkisviðskiptum Íslendinga.


Útflutningsverðmæti ekki algildur mælikvarði

Ofangreindur samdráttur í þorskafla á milli áranna 2021 og 2022 blasir við í útflutningstölum. Á súlunum til vinstri á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutning þorskafurða í tonnum talið undanfarin tvö ár. Samdrátturinn nemur 10%. Þróunin er öllu jákvæðari á súlunum hægra megin, sem sýnir útflutningsverðmæti þorskafurða á föstu gengi ársins 2022. Aukning upp á 10%.

Eins og áður kom fram, þá var mesta hækkunin á verðvísitölu sjófrystra afurða. Það endurspeglast ágætlega á myndinni hér fyrir neðan. Þar má sjá að á sama tíma og útflutt magn sjófrystra flaka stendur svo til í stað á milli ára jukust verðmætin um 55% á föstu gengi. Svipaða sögu er að segja af flestum öðrum afurðaflokkum, þó munurinn á milli breytinga á verðmætum og magni hafi ekki verið eins afgerandi.

Útflutningsverðmæti er þó ekki algildur mælikvarði á stöðuna í sjávarútvegi. Sjá má að töluverður samdráttur er í útflutningi á til dæmis ferskum flökum (14%) og landfrystum (19%) að magni til. Samdráttur í aflaheimildum í þorski hefur gert sjávarútvegsfyrirtækjum erfiðara um vik að útvega nægt hráefni til þess að halda vinnslum gangandi og tryggja heilsársstörf. Hér ber að nefna að afhendingaröryggi og stöðugt framboð er ein grunnforsenda farsælla viðskipta með fisk. Og reyndar á það við um fjölmargar aðrar vörur sem eru í harðri alþjóðlegri samkeppni.


Sókn vestur um haf

Ljóst er að ofangreind þróun setti sitt mark á útflutning til helstu viðskiptalanda. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti þorskafurða til þeirra 10 stærstu. Þess má geta að þar hefur ekki verið leiðrétt fyrir gengisbreytingum, líkt og gert er á myndunum á undan þar sem gengisvísitala Seðlabankans er notuð. Ástæðan er sú ólíka þróun sem átti sér stað á milli helstu viðskiptamynta sem eðlilega hefur áhrif á verðmætin í krónum talið. Þannig var gengi krónunnar gagnvart evru að jafnaði rúmlega 5% sterkara á árinu 2022 en 2021 og rúmlega 4% sterkara gagnvart breska pundinu. Á hinn bóginn lækkaði það um tæplega 7% gagnvart Bandaríkjadal, en hann hækkaði talsvert gagnvart flestum gjaldmiðlum heims í fyrra eins og algengt er þegar óvissa eykst í heimshagkerfinu.

Í fyrsta sinn frá árinu 2008, að undanskildu árinu 2017 þegar áhrifa sjómannaverkfallsins gætti á útflutning, dregst útflutningur til Frakklands saman á milli ára. Þá er miðað við þróunina í evrum og í tonnum. Eins og sjá má á myndinni voru fluttar út þorskafurðir til Frakklands fyrir um 27 milljarða króna í fyrra samanborið við rúmlega 31 milljarð á árinu 2021. Það er 14% samdráttur í krónum talið á milli ára en í evrum er hann rúm 9%. Hlutdeild Frakka miðað við útflutningsverðmæti þorskafurða fer úr 24% í 19%. Eftir sem áður eru Frakkar enn stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með þorskafurðir, sem er að langstærstum hluta fersk flök. Bretar eru önnur stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með þorskafurðir. Þar er nokkur aukning, eða um 9% í krónum talið en um 14% í pundum. Þá aukningu má alfarið rekja til sjófrystra afurða, eins og blasir við á myndinni.

Veruleg aukning er á útflutningi til Bandaríkjanna, eða sem nemur um 25% í krónum talið. Vissulega spilar sú hækkun sem var á gengi Bandaríkjadollar hér inn í, en sé tekið tillit til hennar nemur aukningin rúmum 17% sem má telja dágott. Bandaríkin eru þar með komin í þriðja sætið yfir stærstu viðskipaþjóðir með íslenskan þorsk en hafa á undanförnum árum verið í fjórða sæti á eftir Spáni. Hlutdeild Bandaríkjanna miðað við útflutningsverðmæti þorskafurða var rúm 14% og hefur ekki verið meira frá árinu 2002. Lítilsháttar aukning er á útflutningsverðmæti ferskra flaka til Bandaríkjanna en aukningin er þó mest á landfrystum flökum. Bandaríkin eru einn af best borgandi mörkuðum og það skiptir máli þegar hámarka á verðmæti úr takmarkaðri auðlind.


Egg í mörgum körfum

Nokkur önnur mynd teiknast upp þegar litið er á útflutning í tonnum talið til þessara 10 stærstu viðskiptaþjóða. Til að mynda væru Bandaríkin í fimmta sæti á árinu 2022 ef röðunin myndi miðast við magn. Útflutningur til Bandaríkjanna var litlu meiri en til Nígeríu á árinu 2022, sem myndi hoppa úr áttunda sæti í það sjötta ef miðað væri við magn. Þetta endurspeglar eðlilega að samsetning á þeim fjölmörgu og ólíku afurðum sem unnar eru úr þorski, sem eru misverðmætar á hvert kíló, er afar mismunandi eftir löndum. Þessi lönd skipta þó öll máli þegar hámarka á verðmæti úr takmarkaðri auðlind. Áhersla sjávarútvegsfyrirtækja á sveigjanleika, með fjölbreyttum afurðaflokkum sömu fisktegundar og ólíkum mörkuðum, skiptir sköpun í rekstri þeirra. Það er nefnilega svo að það er sjaldan á vísan að róa í íslenskum sjávarútvegi.

 

Deila frétt á facebook