Uppsjávartegundir fyrirferðamiklar í október

2. desember, 2021

Líkt og kom fram í fréttabréfi á Radarnum í byrjun nóvember nam útflutningsverðmæti sjávarafurða um 26,6 milljörðum króna í október. Það er um 6% aukning á föstu gengi frá sama mánuði í fyrra. Í vikunni birti Hagstofan ítarlegri sundurliðun á þessum tölum, þar sem meðal annars má sjá útflutning niður á tegundir. Þar má sjá að þessa aukningu í október má alfarið rekja til uppsjávartegunda. Nam útflutningsverðmæti þeirra samanlagt um 8,2 milljörðum króna í mánuðinum sem er hátt í tvöföldun á milli ára á föstu gengi. Talsverður samdráttur var í öðrum tegundahópum á sama tíma, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Vægi uppsjávarafurða var, nú í október, þar með töluvert meira en það hefur verið í mánuðinum á undanförnum árum, en útflutningsverðmæti þeirra var um 31% af útflutningsverðmæti sjávarafurða alls í október samanborið við um 17% í október í fyrra sem var þó óvenju lítið.
 


Mestu munar um síldina
Í ofangreindri aukningu í október munar mest um síld, en hún er gjarnan fyrirferðamikil í útflutningi á þessum árstíma. Nam útflutningsverðmæti síldarafurða um 4,0 milljörðum króna í október, sem er um tvöföldun á milli ára á föstu gengi. Hefur útflutningsverðmæti síldarafurða ekki verið meira í einum mánuði en nú í október frá því í sama mánuði árið 2014. Það kemur heim og saman við aflatölur, en mun meiru var landað af síld nú á haustmánuðum, september og október, en verið hefur á sama tíma undanfarin ár. Enn er að bætast í útflutningstölur frá síðustu loðnuvertíð, en verðmæti loðnuafurða í október var 1,6 milljarður króna. Það er margföldun á milli ára, enda var einungis lítilsháttar sala á birgðum í október í fyrra, upp á 100 milljónir króna. Útflutningsverðmæti makrílafurða nam svo rúmlega 2,2 milljörðum króna í október, sem er um 52% aukning á milli ára á föstu gengi. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti uppsjávarafurða eftir tegundum í mánuði hverjum frá ársbyrjun 2020.
 



Um 4% aukning það sem af er ári
Sé tekið mið af fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 240 milljarða króna. Það er ríflega 9% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Af einstaka tegundaflokkum munar mest um uppsjávarfisk, sem alfarið má rekja til loðnuafurða. Samdráttur hefur verið í útflutningsverðmæti annarra uppsjávarfiska á milli ára, þá sér í lagi á makríl (-23%) og kolmunna (-35%). Útflutningsverðmæti síldarafurða er komið í 8,8 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er 6% samdráttur á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða alls er komið í 50 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er rúmlega 35% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi.

Útflutningsverðmæti botnfiskafurða er um 164 milljarðar króna á fyrstu 10 mánuðum ársins. Það er 4% aukning á milli ára á föstu gengi. Þar munar mest um dágóða aukningu á útflutningsverðmæti ýsuafurða (12%).  Útflutningsverðmæti ýsuafurða var komið í 17,3 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins og hefur það ekki verið meira á tilgreindu tímabil í að minnsta kosti áratug. Næstmest munar um útflutningsverðmæti þorskafurða, þó afar lítil breyting sé á þeim bæ á milli ára, eða rétt rúmt 1%. Þorskurinn vegur náttúrulega langmest í útflutningsverðmæti sjávarafurða af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru út og því munar ávallt um hverja prósentu. Eins er dágóð aukning í útflutningsverðmæti á ufsa (10%) og karfa (8%), en verulegur samdráttur var í þessum afurðaflokkum í fyrra.

Af öðrum afurðaflokkum má nefna að um 15% aukning er á útflutningsverðmæti flatfiskafurða á fyrstu 10 mánuðum ársins á milli ára. Aukninguna má nánast alfarið rekja til útflutnings á skarkola, en útflutningsverðmæti hans hefur ekki verið meira í að minnsta kosti áratug. Nemur útflutningsverðmæti skarkola um 2,5 milljörðum króna á árinu, sem er hátt í tvöföldun frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Að lokum má hér nefna rækju, en þar mælist áfram samdráttur líkt og undanfarin ár. Útflutningsverðmæti rækju er um 6,5 milljarðar króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem rúmlega 11% samdráttur á föstu gengi.
 

 

Deila frétt á facebook