Útflutningsdrifið eldi

27. janúar, 2022

Það er engum blöðum um það að fletta að fiskeldi á Íslandi hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum og var nýliðið ár engin undantekning. Rúmlega 53 þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað á árinu 2021, sem er met. Það er þriðjungs aukning á milli ára og ríflega sjöföldun á tíu ára tímabili. Þessa miklu aukningu má að langstærstum hluta rekja til laxeldis en alls var um 46,5 þúsund tonnum af laxi slátrað í fyrra. Það er um 35% aukning á milli ára en um sextánföldun á tíu ára tímabili. Þessar tölur koma eflaust fáum á óvart enda ríma þær ágætlega við þá þróun sem verið hefur á útflutningi á eldisafurðum, sér í lagi á eldislaxi, líkt og fjallað er títt um í greinum á Radarnum.

Íslendingar ala mest allra þjóða af bleikju. Á undanförnum tveimur árum hefur þó ekki gætt sömu þróunar þar og í laxeldi, en fyrir þann tíma var nokkur stígandi í bleikjueldi. Ástæðan er sú að bleikja er mun háðari innanlandsmarkaði en lax. Samdráttinn má að mestu rekja til færri ferðamanna vegna COVID-19. Samkvæmt upplýsingum frá MAST hefur þetta jafnframt leitt til þess að nokkrar bleikjustöðvar hafa hætt rekstri og sumar verið yfirteknar til framleiðslu á laxaseiðum. Jafnframt er hinn alþjóðlegi markaður fyrir bleikju langtum smærri en fyrir lax. Alls var um 5,4 þúsund tonnum af bleikju slátrað í fyrra og er um lítilsháttar samdrátt að ræða á milli ára, eða sem nemur tæpum 2%. Sé hins vegar borið saman við árið 2019, fyrir COVID-19, er um 15% samdrátt að ræða. Eldi á öðrum tegundum er minniháttar  eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Slátrað var um 951 tonni af regnbogasilungi á árinu og um 337 tonnum af Senegalflúru. Þessar tölur hafa jafnframt verið uppfærðar á mælaborðinu á Radarnum.

Aukningin mest á Austurlandi
Á mælaborðinu má jafnframt sjá að umfang fiskeldis er mjög mismunandi eftir landshlutum, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Mest er það á Vestfjörðum þar sem 27,4 þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað í fyrra, sem er ríflega helmingur af því sem fór til slátrunar á árinu. Það er um 22% aukning á milli ára. Mesta aukningin var þó á Austurlandi þar sem rúmlega 17,5 þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað samanborið við 10,2 þúsund tonn árið 2020. Það gerir um 71% aukningu á milli ára. Þó er rétt að hafa í huga að umfang fiskeldis byggist ekki eingöngu á fjölda tonna sem slátrað er á hverjum stað. Bleikja og lax eru að sjálfsögðu misstórir fiskar, framleiðsluferli geta verið mismunandi og Suðurland er langstærst í klaki og seiðaræktun fyrir aðrar eldisstöðvar. Þar að auki er kynbótastöð fyrir bleikju á Norðurlandi vestra og eystra, sem sér öllum öðrum bleikjustöðvum fyrir hrognum. En af þessu er ljóst að fiskeldi er víða um land og er kærkomin búbót fyrir efnahagslíf einstakra landshluta.

Horfur á frekari aukningu
Langstærsti hluti þeirrar aukningar sem orðið hefur á laxeldi hér á landi, má rekja til eldis í sjó. Í fyrra var um 44,5 þúsund tonnum af laxi slátrað úr sjókvíum en um 2 þúsund tonnum úr landeldi. Mikil endurnýjun og uppbygging hefur orðið á seiðastöðvum undanfarin ár sem hefur skilað sér í stöðugt fleiri seiðum til áframeldis. Myndin hér fyrir neðan sýnir heildarfjölda laxaseiða sem fóru til áframeldis í sjókví og magn þess sem slátrað var tveimur árum síðar. Miðað við fjölda útsettra seiða árið 2020 áætlar MAST að yfir 50 þúsund tonn af eldislaxi úr sjó fari til slátrunar í ár samanborið við 44,5 þúsund í fyrra. Eftir það telur MAST að ákveðnu jafnvægi verði náð og að tölurnar verði á bilinu 50 til 60 þúsund tonn á næstu árum. Á heimsvísu er reiknað með því að eldi á laxi aukist um 2-3% á ári, en að markaðurinn stækki um 5-7%. Því mun eftirspurnin vaxa hraðar en framboðið. Eru því horfur á að útflutningstekjur af laxeldi aukist enn frekar í ár og á næstu árum. Vart þarf að nefna þau jákvæðu áhrif sem þetta hefur í efnahagslegu tilliti en nánar um það má lesa í grein á Radarnum þar sem áhrif fiskeldis eru rakin á efnahagslíf.

 

Deila frétt á facebook