Útflutningur á tímum COVID-19

7. apríl, 2020

Hagstofan birti bráðabirgðatölur í gærmorgun um vöruskipti við útlönd í mars, sem er fyrsti mánuðurinn sem áhrifa COVID-19 gætir á hinar ýmsu hagtölur hér á landi. Af tölunum að dæma jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða og eldisafurða á milli ára í mars, einnig að teknu tilliti til gengisáhrifa. Á sama tíma dróst verðmæti vöruútflutnings saman um tæp 2% á milli ára á föstu gengi, þar sem um 11% samdráttur var á öðrum útflutningi en sjávar- og eldisafurðum. Er hlutdeild sjávar- og eldisafurða nú í kringum 50% af vöruútflutningi.

Mikilvægi nýrra gagna  
Þó ber að halda til haga, eins og áður hefur verið bent á í fyrri umfjöllun SFS, að útflutningstölur fyrir tiltekinn mánuð endurspegla ekki að öllu leyti það sem flutt var út í hlutaðeigandi mánuði. Hluti af afurðum kann að hafa verið fluttur út fyrir alllöngu en vegna verklags tollayfirvalda, sem gögn Hagstofunnar byggja á, eru umrædd gögn að birtast nú. Annað fyrirkomulag væri vitaskuld heppilegra, því núverandi fyrirkomulag gefur ekki nákvæma mynd af ástandinu á hverjum tíma. Tölurnar koma einfaldlega of seint. Af þessum sökum koma áhrif COVID-19 ekki fram með fullnægjandi hætti í umræddum gögnum.

Aukning í útflutningsverðmæti sjávarafurða
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 25,5 milljörðum króna í mars samkvæmt ofangreindum bráðabirgðatölum. Þetta er rúmlega 17% aukning í krónum talið miðað við mars í fyrra, en að teknu tilliti til gengisáhrifa var aukningin tæplega 9%. Gengi krónunnar gaf verulega eftir í marsmánuði vegna COVID-19, eins og sjá má á myndinni hér að neðan, og var það um 8% veikara en í mars í fyrra. Ekki liggur fyrir frekari sundurliðun á því hvernig útflutningsverðmæti eða magn á einstökum sjávarafurðum þróaðist í mars, en tölur þess efnis verða birtar 30. apríl.

Eins og við fjölluðum um í nýlegri grein þá hefur sjávarútvegur ekki farið varhluta af þeim aðstæðum sem nú eru uppi vegna COVID-19, frekar en aðrar atvinnugreinar. Það sem kemur í veg fyrir að verr fari, er það skipulag sem sjávarútvegurinn býr við. Það mun vafalaust flýta fyrir aðlögun sjávarútvegs í átt að nýjum aðstæðum. Aðlögunarhæfni og sveigjanleiki sjávarútvegs hefur sjaldan verið mikilvægari fyrir þjóðarbúið og nú, sér lagi þegar horft er til þess að sjávarafurðir vega um 45% af heildarverðmæti vöruútflutnings.

Eldið heldur sjó
Útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða nam 3,2 milljörðum króna í mars samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Það er talsverð aukningu frá mars í fyrra, eða sem nemur um 30% í krónum talið en um 20% mælt í erlendri mynt. Með nokkurri vissu má ætla að þessa aukningu megi rekja til fiskeldis, en eldisafurðir flokkast undir landbúnaðarafurðir í tölum Hagstofunnar um vöruskipti. Á síðustu árum hefur útflutningsverðmæti hefðbundinna landbúnaðarafurða (fiskeldi undanskilið) verið 300 til 500 milljónir króna á þessum tíma árs. Hafi útflutningur þeirra verið áþekkur því sem hann hefur að jafnaði verið á síðustu árum, var útflutningsverðmæti eldisafurða í kringum 2,8 milljarða króna í mars.

Í grein sem birtist á Radarnum í fyrri viku voru til umfjöllunar möguleg áhrif COVID-19 á starfsemi og útflutning eldisfyrirtækja. Óvissan er veruleg, en eins og í tilfelli sjávarafurða hefur dregið úr eftirspurn, sér í lagi eftir ferskum afurðum. Því má velta fyrir sér hvort aukningin í útflutningi þessara afurða hefði ekki orðið meiri í eðlilegu árferði. Raunar verður það að teljast mjög líklegt.  Með tíðari gögnum sem endurspegla jafnframt útflutning í rauntíma, hefði verið hægara um vik að meta slíkt.

 

Deila frétt á facebook