Umtalsverð aukning á útflutningstekjum

25. nóvember, 2021

Útflutningstekjur þjóðarbúsins af vöru- og þjónustuviðskiptum voru rúmir 356 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi. Það er um 44% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra. Gengi krónunnar var að jafnaði um 7% sterkara á þriðja fjórðungi í ár samanborið við sama fjórðung í fyrra og er aukningin þar með meiri í erlendri mynt, eða sem nemur um 54%. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.


Hlutdeild sjávar- og eldisafurða skreppur saman
Útflutningstekjur af sjávarafurðum voru um 65 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi og stóðu nánast í stað á milli ára á föstu gengi. Útflutningstekjur af eldisafurðum voru rúmir 8 milljarðar króna og jukust um 26% á milli ára á sama kvarða. Hlutur sjávar- og eldisafurða í útflutningstekjum þjóðarbúsins er þó töluvert lægri nú á þriðja ársfjórðungi en hann var á sama tímabili í fyrra, eða rúm 20% á móti tæpu 31%. Það eru vissulega jákvæð tíðindi, enda þýðir það bara eitt; að tekjur annarra útflutningsgreina eru að vaxa.

Ferðaþjónusta og ál sækja í sig veðrið
Ber hér fyrst að nefna ferðaþjónustuna, sem varð fyrir hvað mestum skakkaföllum vegna COVID-19 og tilheyrandi sóttvarnaraðgerða. Námu útflutningstekjur af erlendum ferðamönnum á þriðja ársfjórðungi 107 milljörðum króna, sem er 248% aukning á föstu gengi miðað við sama tímabil í fyrra. Það er aðeins umfram þá 210% fjölgun sem varð á erlendum ferðamönnum á tímabilinu, en vísbendingar eru um að dvalartími þeirra hafi verið lengri og meðalútgjöld aukist miðað við fyrri ár. Fjöldi ferðamanna á þó enn talsvert í land með að komast í sama horf og fyrir faraldur. Til mynda var fjöldi þeirra á þriðja ársfjórðungi rétt ríflega helmingur þess sem hann var á sama tímabili árið 2019.

Annar stór liður í útflutningstekjum þjóðarbúsins er ál og álafurðir, en tekjur af honum námu alls rúmum 79 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Það er rúmlega 72% aukning á milli ára í erlendri mynt. Aukningin skýrist að stærstum hluta af umtalsverðum verðhækkunum á heimsmarkaðsverði á áli á undanförnum mánuðum, sem hefur ekki verið hærra í 13 ár. Hækkunina á undanförnum mánuðum má helst rekja til minni álframleiðslu víða um heim og munar þar mest um að Kínverjar hafa dregið úr álframleiðslu vegna breyttrar stefnu þarlendra stjórnvalda í umhverfismálum. Á þriðja ársfjórðungi var verð á áli og álafurðum frá Íslandi að jafnaði um 62% í dollurum talið hærra en á sama tímabili í fyrra. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, þá voru útflutningstekjur af áli talsvert meiri en tekjur af sjávarafurðum á þriðja ársfjórðungi, en slík staða hefur sjaldan komið upp undafarinn áratug. Þetta á þó aðeins við um brúttó tekjur en ekki hreint framlag greinanna til útflutningstekna eða verðmætasköpunar í hagkerfinu. Þar er talsverður munur á enda er álframleiðsla mun háðari innfluttum aðföngum í framleiðslu sinni en sjávarútvegur.

Loðna og fiskeldi spila stóra rullu
Á fyrstu þremur fjórðungum ársins eru útflutningstekjur þjóðarbúsins komnar í rúmlega 867 milljarða króna. Það er tæplega 19% aukning á milli ára í krónum talið. Í erlendri mynt er aukningin aðeins meiri, eða rúm 20%, því gengi krónunnar var að jafnaði um 2% sterkara á fyrstu 9 mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þrátt fyrir þennan myndarlega vöxt er enn talsvert í land með að útflutningstekjur þjóðarbúsins verði svipaðar og þær voru fyrir faraldurinn, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar má jafnframt sjá að það skýrist að öllu leyti af ferðaþjónustunni enda tók komum erlendra ferðamanna ekki að fjölga að neinu ráði fyrr en undir lok annars ársfjórðungs þegar létt var á sóttvarnaraðgerðum.  

Útflutningstekjur af sjávarafurðum námu rúmlega 213 milljörðum króna á tímabilinu og jukust um 10% á milli ára í erlendri mynt. Sú aukning skýrist að langstærstum hluta af góðri loðnuvertíð á fyrsta ársfjórðungi, líkt og fjallað var um í fréttabréfi á Radarnum. Útflutningstekjur af fiskeldi námu um 27 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins og hafa aldrei verið meiri. Nemur aukningin á milli ára 34% í erlendri mynt, en hana má nánast að öllu leyti rekja til stóraukinnar framleiðslu á eldislaxi í sjókví. Nánari umfjöllun um þróunina í fiskeldi má lesa í fréttabréfi á Radarnum.
 

 

Vægi fiskeldis aldrei meira
Þrátt fyrir að dágóð aukning hafi verið í tekjum af öðrum mikilvægum útflutningsgreinum á árinu, eins og ferðaþjónustu og áli, þá eykst hlutur eldisafurða í útflutningstekjum þjóðarbúsins á milli ára. Augljóslega má það rekja til þess að meiri aukning var í útflutningstekjum af eldisafurðum á tímabilinu en í öðrum greinum að jafnaði. Á fyrstu 9 mánuðum ársins er hlutur eldis í útflutningstekjum þjóðarbúsins 3,1% en hann var um 2,8% á sama tíma í fyrra. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan, þá hefur vægi eldisafurða á þennan kvarða aldrei verið meira. Á sama tímabili skreppur hlutur sjávarafurða lítillega saman, fer úr tæpum 27% niður í tæp 25%. Það er eðlileg þróun enda var ferðaþjónustan nánast lömuð stóran hluta síðasta árs vegna COVID-19. Engu að síður má sjá að vægi sjávarafurða er enn mun meira en það hefur að jafnaði verið síðasta áratuginn. Nánari umfjöllun um vægi sjávarútvegsins í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og hlut greinarinnar í landsframleiðslu má lesa á mælaborði Radarsins, en þar hafa tölur verið uppfærðar til ársins 2020.
 

 

Deila frétt á facebook